Maha Vajiralongkorn

Konungur Taílands
(Endurbeint frá Rama 10.)

Maha Vajiralongkorn Bodindradebayavarangkun (taílenska: มหาวชิราลงกรณ บดินทรเทพยวรางกูร; f. 28. júlí 1952), einnig þekktur undir konungsnafninu Rama 10., er núverandi konungur Taílands. Hann er eini sonur konungsins Bhumibols Adulyadej og drottningar hans, Sirikit.

Skjaldarmerki Chakri-ætt Konungur Taílands
Chakri-ætt
Maha Vajiralongkorn
Maha Vajiralongkorn
มหาวชิราลงกรณ
Ríkisár 13. október 2016 -
SkírnarnafnMaha Vajiralongkorn Bodindradebayavarangkun
Fæddur28. júlí 1952 (1952-07-28) (72 ára)
 Bangkok, Taílandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Bhumibol Adulyadej
Móðir Sirikit
EiginkonurSoamsawali Kitiyakara (g. 1977; skilin 1991)
Yuvadhida Polpraserth (g. 1994; skilin 1996)
Srirasmi Suwadee (g. 2001; skilin 2014)
Suthida Tidjai (g. 2019)
Börn8

Æviágrip

breyta

Maha Vajiralongkorn fæddist árið 1952 í Dusit-konungshöllinni í Bangkok. Mestalla ævi sína hefur hann lifað í skugga föður síns, hins geysivinsæla Bhumibols Adulyadej Taílandskonungs. Hann hlaut undirstöðumenntun ásamt þremur systrum sínum í hirðskóla í Chitriada-höll í Bangkok en gekk síðan í skóla á Englandi, fyrst í konunglega skólann í Sussex og svo í Millfield-skólann í Somerset. Árið 1970 var Vajiralongkorn sendur í konunglegan skóla í Sydney í Ástralíu og var hann þar í eitt ár þar til hann útskrifaðist loks frá hernaðarskóla í Duntroon í Kanada.[1]

Sem krónprins naut Vajiralongkorn aldrei vinsælda á við föður sinn, sem Taílendingar nánast tilbáðu sem guð. Vajiralongkorn hefur ávallt haft orð á sér fyrir að vera óútreiknanlegur „vandræðagemsi“ og framkoma hans hefur oft vakið hneyksli. Árið 1996 hengdi hann til dæmis tilkynningu upp á veggi konungshallarinnar í Bangkok þar sem hann sakaði þáverandi eiginkonu sína og barnsmóður opinberlega um framhjáhald.[2] Um aldamótin var jafnvel óttast að uppreisnarástand gæti skapast ef Vajiralongkorn tæki við ríkinu eftir föður sinn.[3]

Árið 2009 birti Wikileaks myndband af krónprinsinum að halda veglega afmælisveislu fyrir púðluhundinn sinn, Fúfú. Á myndbandinu sést Vajiralongkorn ásamt nakinni þáverandi eiginkonu sinni mata hundinn á stærðarinnar afmælistertu á meðan einkennisklæddir þjónar stjana við þau.[4] Hundurinn Fúfú hafði einnig verið sæmdur tign yfirmarskálks í taílenska flughernum.[5]

Vajiralongkorn varð konungur þegar faðir hans lést eftir sjötíu ára valdatíð sína í október árið 2016. Hann tók þó ekki við völdum og skyldum konungsembættisins fyrr en ári síðar þar sem hann vildi tíma til þess að syrgja föður sinn.[6]

Þann 1. maí árið 2019 kvæntist Vajiralongkorn lífverði sínum, konu að nafni Suthidu Tidjai.[7] Suthida varð formlega drottning Taílands næsta dag.[8] Fáeinum dögum síðar, þann 4. maí, var Vajiralongkorn formlega krýndur konungur Taílands í þriggja daga langri krýningarathöfn.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. „Rétt eins og í „Þúsund og einni nótt". Vísir. 28. desember 1972. Sótt 17. febrúar 2019.
  2. „Bhumibol konungur og hans slekti“. Dagur. 15. febrúar 1997. Sótt 16. febrúar 2019.
  3. „Trúin er snar þáttur í lífi Taílendinga“. Lesbók Morgunblaðsins. 13. mars 1999. Sótt 16. febrúar 2019.
  4. „Suppressed video of Thai Crown Prince and Princess at decadent dog party“ (enska). WikiLeaks.
  5. Andrew MacGregor Marshall (5. febrúar 2015). „Thai crown prince's poodle, Air Chief Marshal Foo Foo, has been cremated“ (enska). The Guardian. Sótt 17. febrúar 2019.
  6. „Biðtími krónprinsins teygist á langinn“. Fréttablaðið. 19. október 2016. Sótt 16. febrúar 2019.
  7. „Kvæntist lífverði sínum“. mbl.is. 2. maí 2019. Sótt 2. maí 2019.
  8. „Suthida orðin drottning í Taílandi“. RÚV. 2. maí 2019. Sótt 2. maí 2019.
  9. „Fjallið sem varð að kórónu“. mbl.is. 4. maí 2019. Sótt 7. maí 2019.


Fyrirrennari:
Bhumibol Adulyadej
Konungur Taílands
(13. október 2016 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti