Lögskýringarleið

(Endurbeint frá Rýmkandi lögskýring)

Lögskýringarleið er sú leið sem farin þegar ákveðið hefur verið hvort hið fyrirliggjandi tilvik falli innan eða utan lagaákvæðisins sem er til umfjöllunar.

Almenn lögskýring

breyta

Almenn lögskýring er hin almenna regla og felur í sér að lagaákvæðið er túlkað samkvæmt orðanna hljóðan eins og það var metið samkvæmt textaskýringu. Henni er beitt þegar lítill eða enginn vafi er fyrir hendi eða (nægum) vafa hafi verið eytt síðar í ferlinu.

Í íslenskri dómaframkvæmd hefur stundum verið vikið frá almennri lögskýringu á grundvelli sérstakra og knýjandi raka, svo sem til að gæta samræmis við meginreglu eins og sjá má í hrd. Niðurfelling uppboðsmáls (1990:836). Í því máli láðist fyrir mistök að birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um þriðja nauðungaruppboð á fasteign innan lögbundins frestar þar sem einn uppboðsþolinn var búsettur erlendis með ókunnum dvalarstað. Uppboðshaldarinn felldi uppboðið niður með úrskurði sem var svo kærður. Hæstiréttur mat það svo að við þessar aðstæður hefði ekki átt að fella uppboðsmálið niður heldur boða aftur hið þriðja nauðungaruppboð að nýju á löglegan hátt án tafar.

Þrengjandi lögskýring

breyta

Þrengjandi lögskýring felur í sér að hið fyrirliggjandi tilvik er metið vera utan lagareglunnar, og er nafnið dregið af því að lagaákvæðið er þrengra en tilvikið. Hún er talin eiga sérstaklega við þegar lagaákvæðið mælir fyrir um eitthvað íþyngjandi og enn fremur ef það er þar að auki matskennt og óskýrt. Henni er að jafnaði beitt þegar lagaákvæðið er í eðli sínu undantekning, ef það er undantekning á meginreglum, eða kveður á um skerðingu á athafnafrelsi borgaranna.

Rýmkandi lögskýring

breyta

Rýmkandi lögskýring felur í sér að hið fyrirliggjandi tilvik er metið vera innan lagareglunnar. Beiting hennar er líklegri þegar um er að ræða skyldur stjórnvalda til að fylgja tiltekinni málsmeðferð, kæruheimildir stjórnsýslulaga, og auðkennatalningu settri fram með ótæmandi hætti. Hún er þó talin vera ólíklegri eftir því sem lagaákvæðið er fastmótaðra eða reynir meira á lögmætisregluna. Rýmkandi lögskýring þarf þó að vera í samræmi við þau markmið sem lagaákvæðið á að þjóna.

   Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.