Rúnakeflið frá Narsaq

Rúnakeflið frá Narsaq er furuspýta rist með rúnum frá því um 1000. Spýtan uppgötvaðist í Narsaq á Grænlandi 1953 og þótti þegar merkilegur fundur því að þetta var í fyrsta skipti sem rúnaáletrun frá víkingaöld uppgötvaðist á Grænlandi. Á spýtunni eru tvær setningar en textinn er tvíræður og vandtúlkaður. Jón Helgason taldi að fyrri setningin væri Sá sá sá es á sá sat og merkti eitthvað á borð við "sá sem sat á keraldi sá kerald". Erik Moltke taldi hins vegar að lesa bæri "Á sæ, sæ, sæ es Ása sát" og taldi merkja að guðirnir (Æsir) gerðu sæfarendum fyrirsát. Seinni setningin virðist vera "Bibrau heitir mær sú es sitr á 'bláni'" og hafa menn skilið þetta svo að 'bláinn' sé himinn en nafnið "Bibrau" er vandtúlkað. Á eina hlið spýtunnar er rist heilt rúnastafróf (fuþark) og á enn eina eru skipulega framsett tákn sem ekki hafa verið túlkuð en minna á launrúnir.

Fjórar hliðar Narsaq-spýtunnar, teikning eftir rúnafræðinginn Lisbeth M. Imer

Heimildir

breyta
  • Helgi Guðmundsson (1975). „Rúnaristan frá Narssaq“. Gripla. 1: 188–194.
  • Imer, Lisbeth M. (2017). Peasants and Prayers: The Inscriptions of Norse Greenland. Odense: University of Southern Denmark Press. ISBN 978-8776023454.
  • Knirk, James (1994). „Learning to write with runes in medieval Norway“. Í Lindell, Inger (ritstjóri). Medeltida skrift- och språkkultur. Nordisk medeltidsliteracy i ett diglossiskt och digrafiskt perspektiv II. Nio föreläsningar från ett symposium i Stockholm våren 1992. Stockholm: Sällskapet Runica et Mediævalia. bls. 169–212. ISBN 9188568024.
  • MacLeod, Mindy; Mees, Bernard (2006). Runic Amulets and Magic Objects. Boydell Press. ISBN 1843832054.
  • Sanness Johnsen, Ingrid (1968). Stuttruner i vikingtidens innskrifter. Oslo: Universitetsforlaget.
  • Stoklund, Marie (1993). „Objects with runic inscriptions from Ø 17a“. Meddelelser om Grønland, Man & Society. 18: 47–52.
  • Vebæk, C. L. (1993). „Narsaq – a Norse landnáma farm“. Meddelelser om Grønland, Man & Society. 18.