Pýrít (brennisteinskís) er steind sem tilheyrir flokki málmsteina. Pýrít er kallað glópagull vegna þess að steindin er járnkís, FeS2, og glóir eins og gull. Nafnið pýrít kemur úr grísku og merkir eldsteinn en það vísar til þess að neisti vaknar ef járnkís er slegið saman við tinnu.

Pýrít
Pýrít

Lýsing

breyta

Myndar teningslaga, gulleita og oftast nær smáa kristalla. Ferskir kristalfletir þess glóa sem gull en við veðrun slær á þá gulum og rauðgulum blæ. Pýriti hefur oft verið ruglað saman við gull en pýrítið er mun harðara og teningslaga kornin sýna glögglega að ekki er um gull að ræða.

  • Efnasamsetning: FeS2
  • Kristalgerð: Kúbísk
  • Harka: 6-6½
  • Eðlisþyngd: 4,9-5,1
  • Kleyfni: Engin

Útbreiðsla

breyta

Pýrít er algengt á Íslandi og finnst í hitasoðnu bergi í fornum megineldstöðvum. Finnst einnig í berggöngum og er algengt við hveri á háhitasvæðum.

Heimildir

breyta
  • „Hvað er glópagull og hvernig verður það til“. Vísindavefurinn.
  • Kristján Sæmundsson og Einar Gunnlaugsson (1999) Íslenska steinabókin. ISBN 9979-3-1856-2