Pólýfónkórinn, án undirleiks

Pólýfónkórinn er hljómplata með söng Pólýfónkórsins gefin út af RCA Victrola árið 1973. Um er að ræða fyrstu hljómplötu kórsins, en hún var tekin upp í Stokkhólmi í júní 1973 þegar kórinn fór í söngferð til Danmerkur og Svíþjóðar. Söngstjóri var Ingólfur Guðbrandsson. Allur flutningur er án undirleiks (a cappella) og platan er tekin upp í steríó. Hljóðmeistari var Sylve Sjöberg en upptökustjóri var Frank Hedman. Upptaka var í gerð í Studio 2 hjá Sveriges Radio.

Pólýfónkórinn
Bakhlið
YSVL 1-526
FlytjandiPólýfónkórinn, stjórnandi Ingólfur Guðbrandsson
Gefin út1973
StefnaKórsöngur
ÚtgefandiRCA Victrola
StjórnFrank Hedman

Á fyrri hlið plötunnar eru stutt erlend verk frá 15., 16. og 17. öld en á hinni hliðinni eru nútímaverk eftir íslensk tónskáld.

Lagalisti

breyta

Hlið 1:

  1. Exultate Deo – Höfundur: Alessandro Scarlatti
  2. Jubilate Deo - Höfundur: Orlando di Lasso - Tóndæmi.
  3. Auf dich traue ich - Höfundur: Heinrich Schütz
  4. Ave Maria - Höfundur: Josquin des Prés - Tóndæmi.
  5. Stabat Mater - Höfundur: Giovanni Palestrina

Hlið 2:

  1. Lausnarinn, kóngur kriste - Höfundur: Fjölnir Stefánsson - Tóndæmi.
  2. Svo vítt um heim sem sólin fór - Höfundur: Fjölnir Stefánsson
  3. Requiem – Kyrie – Dies Irae – Höfundur: Páll P. Pálsson
  4. Lofsöngur engla - Höfundur: Þorkell Sigurbjörnsson


Um útgáfu plötunnar

breyta

Fjallað um útgáfu plötunnar í Tímanum 1973; „Hljómplata með söng Pólýfónkórsins er komin út hjá hinu heimskunna fyrirtæki RCA. Platan kemur samtímis á markað í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Þýzkalandi, og mun að líkindum einnig koma út í Ameríku og fara á heimsmarkað.

Platan var hljóðrituð í stúdíói hjá sænska sjónvarpinu á einum degi í júní í sumar, en þá var kórinn á söngferð í Svíþjóð. Fékk hann frábæra dóma fyrir flutning á verkum þeim, sem tekin voru á plötuna og síðan birtu tónlistargagnrýnendur dönsku blaðanna mjög lofsamlega dóma um söng kórsins í Danmörku.

Á plötunni eru bæði íslenzk og erlend verk. Íslenzku höfundarnir eru Páll P. Pálsson, Fjölnir Stefánsson og Þorkell Sigurbjörnsson, en þeir erlendu Scarlatti, Lasso, Josquin des Prés, Schutz og Palestrina. Er platan allgott sýnishorn af viðfangsefnum Pólýfónkórsins á 16 ára starfsferli hans og verður væntanlega kærkomin jólagjöf unnendum góðrar tónlistar.

Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi kórsins sagði blaðinu, að 4000 eintök hefðu verið pressuð af plötunni og kæmi helmingurinn á markað hérlendis. Textar munu fylgja, bæði á frummálinu og íslenzku.“[1]

Tilvísanir

breyta
  1. Tíminn, 12. desember 1973, bls. 15.