Orrustan við Leghorn
Orrustan við Leghorn var sjóorrusta milli flota Enska samveldisins og Hollenska lýðveldisins við borgina Livorno (stundum kölluð „Leghorn“ á ensku) á Ítalíu 4. mars 1653 meðan á Fyrsta stríði Englands og Hollands stóð. Englendingar höfðu skipt flota sínum í tvennt eftir ósigur Hollendinga við Kentish Knock og sent annan hluta hans í Miðjarðarhafið. Þetta reyndust mistök og enski flotinn beið ósigur í orrustunni við Dungeness í desember 1652. Snemma árs 1653 voru þeir líka komnir í vandræði í Miðjarðarhafinu. Enski flotaforinginn Henry Appleton var fastur í Livorno með sex skip sem gætt var af 16 hollenskum skipum undir stjórn Johan van Galen.
Eina leið Appletons til að sleppa var að fá liðsauka. Flotaforinginn Richard Badiley hélt frá Elbu honum til aðstoðar með 8 skip. Áður en Badiley næði til Appletons hafði hann siglt af stað og hafið orrustu við hollensku skipin. Hollendingar hertóku þrjú skip og sökktu tveimur. Þegar Badiley kom á staðinn höfðu Hollendingar yfirhöndina og hann hörfaði því af hólmi.