Myndvinnsluforrit er hugbúnaður til að vinna með og breyta myndum með tölvu. Myndir sem unnið er með á tölvu skiptast í rastamyndir, vigurmyndir og þrívíddarmyndir. Forritin eru venjulega sérhæfð fyrir eina tegund mynda. Sum forrit eru sérhæfð fyrir kvikmyndavinnslu og teiknimyndagerð og önnur innihalda aðgerðir til að búa til gagnvirkt margmiðlunarefni. Umbrotsforrit eru sérhæfð til að setja saman myndir og texta. Eins eru til alls konar sértæk myndvinnsluforrit til að búa til póstkort, ættartré, flæðirit o.s.frv. Myndvinnslupakkar á borð við ImageMagick og Ghostscript innihalda alls kyns skipanaviðmótsaðgerðir til að vinna með myndir en eru yfirleitt settir upp sem miðbúnaður, þ.e. hjálparforrit sem önnur forrit nýta sér.