Moskan í Reykjavík
Moskan í Reykjavík er íslömsk moska sem er í Reykjavík á Íslandi. Moskan var stofnuð árið 2002 að frumkvæði Félags múslima á Íslandi.
Starfsemi
breytaFélag múslima á Íslandi greiðir fyrir rekstur moskunnar í Reykjavík. Í moskunni eru föstudagsbænir eða djúma og líka bænir að nóttu til. Salmann Tamimi frá Palestínu var imam moskunnar og formaður félagsins þar til hann lést árið 2020.[heimild vantar][1]
Saga
breytaÁrið 2000 fór félagið þess á leit við borgarstjórn Reykjavíkur að félaginu yrði úthlutað lóð til byggingar mosku, skv. 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl.[2]. Árið 2006, þegar lóðinni hafði enn ekki verið úthlutað, hafði bandaríska utanríkisráðuneytið uppi efasemdir um að töfin ætti sér lögmætar skýringar.[3] Árið 2007 gerði Evrópuráðið gegn kynþáttamisrétti (ECRI) athugasemd við að lóðinni hefði enn ekki verið úthlutað.[4] Athugasemdirnar voru ítrekaðar í landsskýrslu ráðsins árið 2012.[5] Reykjavíkurborg úthlutaði loks lóð til byggingar moskunnar árið 2013, þegar einnig var gert ráð fyrir henni í nýju aðalskipulagi. Lóðin er við Suðurlandsbraut og árið 2019 var gefið leyfi fyrir tæplega 700 fermetra byggingu. [6]
Deilur
breytaÍ júní 2012 var bréfi dreift í hús í grennd við fyrirhugaða lóð undir mosku, með yfirskriftinni „Mótmælum mosku á Íslandi“. Samkvæmt lýsingu var í síðuhaus „mynd af mosku með hauskúpu í forgrunni og blóð rennur út um munn hauskúpunnar“.[7]
Í júlí 2013 fjallaði Morgunblaðið um hópinn „Mótmælum mosku á Íslandi“ sem stofnaður hafði verið á Facebook og tæplega 2.000 manns höfðu þá „líkað“ við.[8] Skömmu síðar greindi Vísir frá því að fólk hefði verið hvatt til að „líka“ við síðuna á alþjóðlegu spjallsvæði nýnasista.[9]
Í nóvember árið 2013 var afskornum svínshöfðum dreift um lóðina sem úthlutað hafði verið undir moskubygginguna, ásamt eintaki af Kóraninum sem atað hafði verið blóði.[10] Einn mannanna sem voru að verki, Óskar Bjarnason, lýsti verknaðinum á hendur sér. Rannsókn lögreglu á málinu lauk án kæru.[11]
Kosningar 2014
breytaSeinni hluta maí, 2014, sagðist Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, efsti frambjóðandi Framsóknarflokksins í kosningum til borgarráðs í Reykjavík, vilja beita sér fyrir því að úthlutun lóðarinnar yrði afturkölluð.[12] Sagði Sveinbjörg meðal annars: „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“.[13] Á facebook-hópnum „Mótmælum mosku á Íslandi“ var í kjölfarið lýst yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn í kosningunum.[14]
Meðal þeirra sem andmæltu málflutningi Sveinbjargar var Samband ungra framsóknarmanna, sem lýsti yfir „fullkomnu vantrausti“ á oddivtanum „vegna framgöngu hennar í málefnum sem varða lóðarúthlutanir fyrir trúfélög“. Yfirlýsingin hvarf af vefsíðu félagsins um hálftíma eftir birtingu.[15] Hreiðar Eiríksson hætti við framboð með flokknum í kjölfar mosku-ummælanna. Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði afstöðu oddvitans í Reykjavík ganga þvert á stefnu flokksins.[16] Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra tók undir með Sigrúnu.[17] Guðrún Bryndís Karlsdóttir sagðist í grein hafa hætt við framboð með flokknum á undirbúningsstigi, vegna fyrirætlaðrar áherslu á andstöðu við byggingu moskunnar.[18]
Þá andmælti biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, málstað frambjóðanda Framsóknarflokksins og sagði: „Það er sjálfsagt mál að fólk hafi stað til að koma á og lofa sinn guð. Ég hef enga skoðun hvar moska á að vera í Reykjavík. Mér finnst sjálfsagt að múslimar fái að hafa sinn helgistað.“[19]
Í kjölfar kosninganna kærði Salman Tamimi, fyrrum formaður Félags múslima á Íslandi, ummæli sem þá höfðu birst um hann í spjallþráðum, sem morðhótanir.[20]
Heimildir
breyta- ↑ „Upplýsingar á vefsíðu Félags múslima á Íslandi“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2014. Sótt 5. júní 2014.
- ↑ http://www.althingi.is/lagas/141b/1970035.html
- ↑ Bandaríska utanríkisráðuneytið: International Religious Freedom Report 2006
- ↑ „Þriðja skýrsla ECRI um Ísland, 2007“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. mars 2016. Sótt 5. júní 2014.
- ↑ Skýrsla ECRI um Ísland, 2012
- ↑ [https://www.visir.is/g/20191629506d Moskan á Suðurlandsbraut samþykkt]Vísir, sótt 4/3 2023
- ↑ Fengu áróðursbréf gegn múslimum inn um lúguna, frétt á mbl.is, 27. júní 2012
- ↑ „Mýturnar um múslima“, umfjöllun á mbl.is, 17.7.2013
- ↑ Nýnasistar hvattir til að mótmæla mosku á Íslandi
- ↑ Afsagaðir svínshausar á moskulóð í Sogamýri, frétt frá Vísi
- ↑ Lögregla lokið rannsókn, frétt á Vísi
- ↑ „Ólga innan Framsóknar vegna ummæla oddvita“, frétt frá RÚV
- ↑ „Oddviti Framsóknar vill afturkalla lóð …“, frétt á Vísi, 23. maí 2014
- ↑ „„Moskuandstæðingar lýsa yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn", frétt á Vísi, 3. júní 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2014. Sótt 5. júní 2014.
- ↑ „Vantraust á oddvita fjarlægt af vefsíðu“, frétt frá RÚV, 29. maí 2014
- ↑ Endurspeglar ekki afstöðu flokksins
- ↑ „„Gunnar Bragi tekur undir orð Sigrúnar", frétt frá RÚV, 26. maí 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. maí 2014. Sótt 5. júní 2014.
- ↑ „„Er þetta Framsókn framtíðarinnar?" grein í Kvennablaðinu, 28. maí 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júní 2014. Sótt 5. júní 2014.
- ↑ „Biskup Íslands fylgjandi mosku …“, frétt á Vísi, 26. maí 2014
- ↑ „„Salman kærir morðhótanir", frétt á vef DV, 4. júní 2013“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júní 2014. Sótt 5. júní 2014.
Tenglar
breyta- Íslam.is Geymt 17 maí 2014 í Wayback Machine
- Lög um kristnisjóð o.fl.