Meistaraþjófur
Meistaraþjófur er staðalpersóna í skáldskap. Meistaraþjófurinn er andhetja, yfirstéttarmaður eða -kona sem leiðist stundum út á glæpabrautina af leiðindum. Meistaraþjófurinn beitir óaðfinnanlegri framkomu, kurteisi, persónutöfrum, dulargervum og brögðum til að fremja rán; ekki til að auðgast sjálfur, heldur vegna spennunnar og áskorunarinnar sem felst í ráninu. Oft felst í því einhvers konar umvöndun eða ráðning gagnvart fórnarlambinu.
Frægir meistaraþjófar eru meðal annars A. J. Raffles (innblásinn af Sherlock Holmes) í sögum E. W. Hornung, Arsène Lupin úr sögum Maurice Leblanc, Simon Templar úr sögum Leslie Charteris, og Svarta kisa úr sögum um Kóngulóarmanninn.