Meðal róna og dóna í Arisóna og Gullnáman
Meðal dóna og róna í Arísóna og Gullnáman eftir belgíska teiknarann Maurice de Bevere (Morris) er 22. bókin í íslensku ritröðinni um Lukku Láka. Bókin var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Sögurnar, sem bókin hefur að geyma, birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (franska: Le Journal de Spirou) á árunum 1946-1947, en voru gefnar út í bókarformi í Belgíu á árunum 1949 og 1951, þ.e. annars vegar í bókinni Gullnáman (f. La Mine d´or de Dick Digger) sem kom út árið 1949 og hins vegar í bókinni Arísóna (f. Arizona) sem kom út árið 1951.
Söguþráður
breytaBókin hefur að geyma tvær sögur, Arísóna og Gullnámuna. Arísóna er fyrsta Lukku Láka sagan sem kom fyrir almenningssjónir í tímaritinu Sval á árinu 1946. Í sögunni reynir Lukku Láki að hafa hendur í hári nokkurra póstvagnaræningja. Í Gullnámunni hittir Lukku Láki gamlan vin, Grím gullgrafara, sem fundið hefur nýja gullæð í fjalllendi og er á leið til Nuggborgar að skrá fundarrétt sinn. Lukku Láki slæst í för með Grími, en á krá einni, þar sem þeir ætla að gista yfir nótt á leið sinni til Nuggborgar, fær Grímur sér helst til mikið neðan í því og segir öllum viðstöddum frá gullfundinum. Um nóttina ráðast tveir þrjótar á Grím í herbergi hans og ræna gullmolum og (óafvitandi) uppdrætti sem vísar veg að gullnámunni. Eru ræningjarnir hinir sömu og Lukku Láki þurfti að kljást við í fyrri sögunni (Arísóna). Næsta morgun lofar Lukku Láki eiginkonu Gríms að finna þrjótana og hefur eftirför. Eftir æsilegan eltingaleik, þar sem Lukku Láka er m.a. bjargað frá drukknun af indíánanum Úlfshaus, tekst honum að ná uppdrættinum af þjófunum tveimur og koma í hendur Gríms grafara, sem er minnislaus eftir árásina á kránni. Með því að koma fölskum uppdrætti til þjófanna leiðir Lukku Láki þá í gildru og kemur þeim í hendur réttvísinnar.
Fróðleiksmolar
breyta- Póstvagnsekillinn í Arísóna er nauðalíkur Stjána bláa, enda var Morris á þessum tíma undir miklum áhrifum frá bandarískum teiknimyndum. Eru báðar sögurnar raunar mjög í stíl teiknimynda Disney á þessum tíma, atburðarásin hröð og lítið um samtöl.
- Í sögunni um Gullnámuna sést Lukku Láki ganga út af krá með merktu nafnskilti, en nafn krárinnar breytist milli tveggja ramma. Í íslenskri útgáfu sögunnar eru þessi "mistök" endurtekin, en í fyrsta ramma á bls. 35 heitir kráin Síuxinn síungi en í næsta ramma Síuxinn sífulli.