Matís ohf
Matís styður við verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi og leitast við að hafa áhrif á samfélagið með rannsóknum. Unnið er að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og öll þau sem með einhverjum hætti veita matvælaiðnaði þjónustu. Markvisst er unnið að því að auka samvinnu við erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni.
Rannsóknarverkefni
breytaÍ gegnum rannsóknaverkefni, sem eru viðamesti hluti starfsemi Matís, er unnið að stórum og fjölbreyttum áskorunum með ýmsum samstarfsaðilum. Matís vinnur að rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og er í fremstu röð í rannsóknum tengdum bættri nýtingu hliðarstrauma í matvælavinnslu sem og sjálfbærri nýtingu annarra lífauðlinda til fóðurs, áburðar og manneldis. Þar af leiðandi er Matís vel í stakk búið til að gegna lykilhlutverki hér á landi í því að mæta áskorunum og tækifærum sem fylgja fyrirsjáanlegri uppbyggingu hringrásarhagkerfis, fæðuöryggi og sjálfbærri matvælaframleiðslu.
Mælingar og þjónusta
breytaRannsóknastofa Matís býður upp á örveru- og efnarannsóknir á matvælum, vatni, hráefnum, lyfjum, fóðri og umhverfissýnum. Til að tryggja öryggi og heilnæmi þarf mælingar sem sýna að allir ferlar framleiðslunnar séu í góðum og öruggum farvegi. Þjónustumælingar Matís fara fram í Reykjavík og í Neskaupstað.
Auk mælinga veitir Matís opinberum aðilum, matvælafyrirtækjum, lyfjafyrirtækjum, sláturhúsum og einkaaðilum ráðgjöf í tengslum við mælingar. Matís hefur þar að auki milligöngu um að senda sýni í mælingar til erlendra rannsóknastofa í þeim tilfellum þegar Matís býður ekki upp á þær.
Saga Matís
breytaÁrið 2006 voru sett lög á Alþingi sem heimiluðu stofnun opinbers hlutafélags sem sameinaði undir einn hatt þrjár ríkisstofnanir sem sérhæfðu sig í rannsóknum og þróun í matvælaiðnaði. Þetta voru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Við stofnun Matís rann líftæknifyrirtækið Prokaria einnig inn í fyrirtækið. Sömu lög kváðu á um nýja stofnun Matvælarannsókna hf. en starfræksla þess sem opinbers hlutafélags hófst þann 1. janúar 2007 undir nafninu Matís. Starfsemi þess í dag heyrir undir Matvælaráðuneyti.
Matís starfar á grundvelli laga nr. 68/2006 um Matís ohf. Þau er að finna hér: Lög um Matís ohf.
Starfsstöðvar Matís um land allt
breytaMatís rekur starfsstöðvar um land allt, að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík meðtöldum. Þær eru:
- Akureyri
- Ísafjörður
- Neskaupstaður
- Hvanneyri
Áherslur starfsstöðvanna eru fjölbreyttar og endurspegla vítt starfssvið Matís og faglega þekkingu innan fyrirtækisins. Að sama skapi taka starfsstöðvarnar einnig mið af nærsamfélaginu á hverjum stað og þeim þörfum sem þar eru. Þannig eru starfsstöðvar Matís á Ísafirði og Akureyri í nálægð við stærri eldis- og sjávarútvegsstaði landsins. Mælingaþjónustan í Neskaupstað er mikilsverð bæði fyrir framleiðslufyrirtæki og opinbera eftirlitsaðila á heilbrigðissviði á Austurlandi og hjá Matís á Hvanneyri hefur hefur byggst upp mikil þekking á sviði fjölbreytts landbúnaðar.
Með starfi út um landið undirstrikar Matís vilja fyrirtækisins til að vinna með aðilum heima í héruðunum að fjölbreyttum verkefnum sem treyst geta atvinnulíf, aukið nýsköpun og fjölgað störfum. Stefna Matís er að á komandi árum efli fyrirtækið þessa áherslu enn frekar um allt land.