Múlahverfi

(Endurbeint frá Múlakampur)

Múlahverfi, eða Múlakampur og Herskálakampur, var íbúðarhverfi í Reykjavík, á svæðinu frá Suðurlandsbraut upp að núverandi götustæði Ármúla og Síðumúla. Hverfið reis utan skipulags Reykjavíkurborgar á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld. Hernámsliðið reisti fjölda bragga þarna á stríðsárunum og þegar það hvarf á brott tók fólk í húsnæðishraki sér búsetu þar, enda var mikill húsnæðisskortur í borginni. Fljótlega var farið að byggja við braggana og fólk reisti sér líka lítil timburhús í grennd við þá, oftast af miklum vanefnum, enda byggðu íbúarnir þau oftast sjálfir og fengu engin lán til þeirra.

Flest húsin voru reist í óleyfi en sumir gerðu þó samning við borgina um leigulóð til 10 ára og urðu húsin sem þeir reistu að vera úr timbri og ekki stærri en 48 fermetrar á einni hæð, svo unnt væri að flytja þau burt þegar hverfið yrði skipulagt. Ekki fóru þó allir eftir þessu og sum húsin urðu stærri og tvílyft. Þjónusta við íbúana var af mjög skornum skammti, vatnslagnir lélegar, frárennsli ekkert, heldur var skólpi veitt í rotþrær, og götulýsing lítil.

Hverfið var mjög þéttbýlt og þar voru margar barnafjölskyldur. Árið 1963 bjuggu þar um 800 manns, þar af 630 í húsum en aðrir í bröggum. Seint á 6. áratugnum hófst uppbygging hverfisins sem iðnaðar- og verslunarhverfis og voru fyrstu húsin reist upp úr 1957. Á næstu árum voru braggarnir og flest íbúðarhúsin rifin en hverfið var þó ekki að fullu uppbyggt fyrr en 1985 og stóðu nokkur íbúðarhús innan um iðnaðar- og skrifstofuhús allt fram undir það.

Bíbí Ólafsdóttir spákona ólst upp í Múlakampi og er uppvexti hennar þar og mannlífinu í hverfinu lýst vel í endurminningarbókinni Bíbí sem Vigdís Grímsdóttir skrásetti.

Heimildir breyta

  • „„800 Reykvíkingar búa við skert réttindi". Alþýðublaðið, 17. mars 1963“.
  • „„Byggingasaga Múlahverfis". Tíminn, 10. maí 1986“.
  • „„Hugleiðing um íbúðahverfið við Suðurlandsbraut". Þjóðviljinn, 7. október 1953“.