LIBOR

(Endurbeint frá Libor)

LIBOR eða „London Interbank Offered Rate“ eru millibankavextir í London en það er sú vaxtaprósenta sem stærstu alþjóðlegu bankarnir í London nota þegar þeir veita lán sín á milli.

Millibankavextirnir LIBOR draga nafn sitt af London sem er ein stærsta fjármálamiðstöð heims.

Þeir vextir sem almennt gilda á markaði fyrir lánsfé á milli bankastofnana kallast millibankavextir. Millibankavextir eru breytilegir og fara eftir kjörum á markaði hverju sinni. Á millibankamarkaði miðla fjármálastofnanir inn- og útlánum sín á milli til ákveðins tíma, yfirleitt frá einum degi til eins árs. Ef stöðugt er hægt að ganga að því vísu að fyrir hendi séu tilboð í skammtímalán til mismunandi tíma í nægilega stórum fjárhæðum á ákveðnum kjörum er talað um formlegan millibankamarkað. Með slíkum markaði verða til sýnilegir vextir og markaðskjör eru uppfærð jafnt og þétt í takt við breyttar markaðsaðstæður. Sé fjárþörf mikil á markaðinum hækka vextir, en lækka við mikið framboð.

LIBOR-vextir eru þau kjör sem bjóðast á lánum í tilteknum gjaldmiðli á millibankamarkaði í London á þeim tíma sem vextirnir eru ákvarðaðir. Þessi vextirnir eru skráðir einu sinni á dag af Samtökum breskra banka (e. The British Bankers’ Association) með því að haft er samband við 8, 12 eða 16 fyrirfram ákveðnar alþjóðlegar fjármálastofnanir sem starfa í London og tekið meðaltal vaxtatilboða þeirra eftir að ákveðinn fjöldi lægstu og hæstu tilboða hefur verið tekin út.

LIBOR- vextir eru til fyrir 10 gjaldmiðla. LIBOR-vextir eru síðan notaðir sem viðmiðunarvextir í fjármálaviðskiptum um allan heim, hvort sem um er að ræða hefðbundin lán, gjaldmiðlasamninga eða afleiðuviðskipti.

Millibankavextir eru til á öllum millibankamörkuðum og bera gjarnan svipaðar skammstafanir. Þannig heita vextir á millibankamarkaði í Evruríkjunum EURIBOR en í Reykjavík REIBOR.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta