La Fiancée de Lucky Luke

Makaval í Meyjatúni (franska: La Fiancée de Lucky Luke) eftir belgíska teiknarann Morris og höfundinn Guy Vidal er 54. bókin í bókaflokknum um Lukku-Láka. Bókin kom út árið 1985, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í Teiknimyndablaðinu Sval á sama ári.

Kápa íslensku útgáfu bókarinnar.

SöguþráðurBreyta

Í bænum Meyjatúni, eins og víðar í Villta Vestrinu, ríkir ófremdarástand vegna kvenmannsleysis. Bæjarstjórinn í St. Louis hefur áhyggjur af fólksfækkun í Meyjatúni og fær Lukku-Láka til að fylgja hópi föngulegra kvenna þvert yfir Bandaríkin til bæjarins í því skyni að leysa vandamálið. Lukku-Láki er tregur í taumi til að byrja með, en lætur síðan tilleiðast. Með í för eru gamall vinur Láka, vagnstjórinn Halli svipa, og franski hárskerinn Samúel Smári, enda veitir ekki af liðsauka þar sem ferðin er löng og ströng. Eftir ævintýralegt ferðalag nær hópurinn loks til Meyjatúns. Þegar kemur upp úr dúrnum að vonbiðill einnar stúlkunnar, Jennýjar, er á bak við lás og slá þarf Lukku-Láki að hlaupa í skarðið og ganga í hnapphelduna.

FróðleiksmolarBreyta

  • Textahöfundur bókarinnar, franski blaðamaðurinn Guy Vidal (1939-2002), var einnig meðhöfundur bókarinnar Þjóðráð Lukku Láka og kom auk þess að samningu nokkurra annarra bóka í bókaflokknum í samstarfi með þeim Claude Klotz (Patrick Cauvin) og Jean-Louis Robert, en þremenningarnir notuðust þá við pennaheitið Claude Guylouis.
  • Morris gerði ýmsar breytingar á handriti Vidal að sögunni sem hinum síðarnefnda mislíkaði mjög. [1]
  • Þegar bókin kom út í Bretlandi árið 2016 þótti útgefandanum Cinebook ástæða til að vara lesendur sérstaklega við úreltum viðhorfum til kynjahlutverka í sögunni.
  • Í sögunni er gefið í skyn að franski hárskerinn Samúel Smári sé samkynhneigður. Hann ber raunar nafn franska landkönnuðarins Toussaint Charbonneau (1767-1843) á frummálinu, en persónan virðist að öðru leyti hreinn tilbúningur.
  • Bókin var prentuð í stóru upplagi og seldist vel, en frá og með næstu bók fór sala Lukku-Láka bókanna að dragast saman. [2]
  • Sagan er lauslega byggð á kvikmyndinni Westward the Women frá árinu 1951. Hugmyndin varð til í samstarfi Morris og franska leikstjórans Francis Paul Veber. Veber átti upphaflega að semja handritið að sögunni, en ekkert varð úr því. [3]

Íslensk útgáfaBreyta

Makaval í Meyjatúni kom út á vegum Frosks útgáfu í íslenskri þýðingu árið 2017.