Kristnesspítali eða Heilsuhæli Norðurlands að Kristnesi var tekið í notkun 1927. Það reyndist mikilvæg brjóstvörn í baráttunni við hinn hvíta dauða, berklaveikina. Þegar komið var fram undir 1960 voru öflug berklalyf farin að hafa þau áhrif að þörf berklaveikra fyrir hælisvist var orðin svo lítil, að heilbrigðisstjórnin gaf út fyrirmæli um að taka þar inn aðra sjúklinga. Árið 1976 tilkynnti ráðherra í bréfi til stjórnarnefndar Ríkisspítala að Kristneshæli yrði framvegis rekið sem hjúkrunar- og endurhæfingarspítali. Lítt varð þó breytinga vart. Nafni stofnunarinnar var breytt árið 1984 úr heilsuhæli í spítala en það ár segir í ársskýrslu að yfirgnæfandi meirihluti sjúklinga sé inniliggjandi til langdvalar.

Í mars 1985 samþykkti stjórnarnefnd Ríkisspítalanna nýja stefnumörkun á fundi sem hún hélt á Kristnesspítala. Þar segir m.a. að á neðri hæð verði rekin endurhæfingardeild fyrir lyflæknis-, bæklunar- og gigtarsjúklinga eftir því sem þörf krefur. Í samræmi við þessa stefnumörkun var hafinn undirbúningur að því að rýma til fyrir væntanlegum endurhæfingarsjúklingum, og lögð áhersla á hvíldarinnlagnir í stað hjúkrunarsjúklinga. Árið eftir var unnin fullkomin framkvæmda- og kostnaðaráætlun um breytingar og viðbyggingar og samþykkt af stjórnarnefnd. Áætlunin var í sex liðum til jafnmargra ára. Ekki hafði þó tekist að halda tímamörk samkvæmt þeirri áætlun þegar endurhæfingardeild tók þar til starfa 1. ágúst 1991. Fyrsti yfirlæknir hennar var Stefán Yngvason. Þar með var loks kominn raunhæfur grundvöllur fyrir deildaskiptingu spítalans. Samtímis uppbyggingu leituðu yfirvöld mjög eftir öðru rekstrarfyrirkomulagi og á haustmánuðum 1992 virðist svo sem rekstur spítalans hafi verið í uppnámi og einn kostur í stöðunni var sá að leggja spítalann niður. En það tókst að koma á viðræðum milli Ríkisspítala, FSA (Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri) og heilbriðgisyfirvalda um endanlegt framtíðarskipulag á rekstri spítalans, sem lauk á þann hátt að FSA fékk ákveðna fjárveitingu frá ríkinu og tók að sér reksturinn 1. janúar 1993. Sama dag var öldrunarlækningadeild stofnuð formlega. Fyrsti yfirlæknir hennar var Halldór Halldórsson. Hann hafði áður verið yfirlæknir Kristnesspítala frá 1985 en þar áður gegnt starfi sérfræðings við lyflækningadeild FSA.[1]

Heimildir

breyta
  1. Magnús Stefánsson. (2004). „Stiklað á stóru í sögu sjúkrahúsa á Akureyri : Tekið saman í tilefni hálfrara aldar afmælis FSA 2003“. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Akureyri.