Konrad Johannesson

Konrad (Konnie) Johannesson (10. ágúst 1896 - 28. október 1968) var kanadískur flugmaður af íslenskum uppruna og bakvörður í íshokkí. Hann keppti á Ólympíuleikum í landsliði Kanada (Winnipeg Falcons) í íshokkí.

Konrad Johannesson á Ólympíuleikunum árið 1920.

Konrad fæddist í Glenboro, Manitoba í Kanada en fjölskylda hans flutti til Winnipeg árið 1897 og hann ólst þar upp. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jóhannesson og Rósa Einarsdóttir frá Íslandi. Í fyrri heimstyrjöldinni lærði hann flug og varð flugmaður í herdeildinni Royal Flying Corps. Hann var orðinn leikmaður í íshokkí í Falcons-liðinu fyrir stríðið (1913-1914) en hann og flestir aðrir í liðinu gengu í kanadíska herinn. Hann var sendur til Egyptalands í flugnám en snéri aftur til Winnipeg eftir stríðslok í maí 1919. Sama árið byrjaði gamla íshokkí-liðið hans aftur að keppa og urðu þeir íshokkímeistarar Vestur-Kanada. Eftir afgerandi sigur á háskólaliði frá Toronto unnu þeir Allan-bikar og voru þar með valdir til að keppa á Ólympíuleikunum í Belgíu.

Konrad ferðaðist til Belgíu á skipi með hinum leikmönnunum. Sjö lið kepptu í íshokkí í þetta sinn, en aldrei áður hafði verið keppt í íshokkí á Ólympíuleikunum. Kanadamennirnir unnu með yfirburðarsigur og varð Kanada þar með fyrsta þjóðin til að vinna til gullverðlauna í íshokkí. Eftir heimferðina hélt Konrad áfram að keppa í íshokkí í nokkur ár en aðalatvinnugrein hans varð flug og flugkennsla.