Kaldbaksvík á Ströndum er stærsta víkin á milli Bjarnarfjarðar og Veiðileysu í Kaldrananeshreppi.

séð til suðurs: Kaldbakshorn gnæfir yfir Kaldbaksvík.

Landnámsmaðurinn Önundur tréfótur nam þar land og byggði þar bæ sinn Kaldbak, að norðanverðu í víkinni. Á þeirri jörð stendur hús sem byggt var 1955 úr viðum húss kaupmannsins í Kúvíkum við Reykjarfjörð. Bærinn Kleifar stendur sunnan við víkina og er einungs notað til sumardvalar líkt og Kaldbakur. Fáein önnur smærri sumarhús í einkaeign eru í landi Kleifa.

Kaldbakshorn gnæfir yfir víkinni sunnanverðri, 508 metra hátt, sagnir eru af því að Svanur á Svanshóli hafi gengið í fjallið eftir að hann drukknaði út af víkinni og að þar hafi verið vel tekið á móti honum. Svanur bjó á Svanshóli í Bjarnarfirði. Sagan segir að göng liggi úr hlíðinni ofan við Svanshól undir fjallgarðinn og út um Svansgjá, sem er áberandi gjá í Kaldbakshorni. Þá leið notaði Svanur til að stytta sér leið er hann reri til fiskjar frá Kaldbaksvík.

Kaldbaksvíkurvatn er í dalnum inn af víkinni og þar nokkru ofar er að finna heita hveri með allt að 70°C heitu vatni.

Fjallendið milli Kaldbaksvíkur og Veiðileysufjarðar er á náttúruminjaskrá og hæsti tindur svæðisins er Lambatindur, 854 m.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.