Kúlulán

Kúlulán (e. bullet loan) eða eingreiðslulán eru yfirleitt langtímalán þar sem engin afborgun á sér stað fyrr en við lok lánstímans. Vextir eru annað hvort greiddir reglulega, t.d. einu sinni á ári, eða endurlánaðir og bætast þá við höfuðstól lánsins. Slík lán eru gjarnan kölluð blöðrulán vegna þess hvernig þau „blása út“.

Þessi tegund lána hefur þann kost fyrir lántakandann að hann hefur fjármagnið lengur í höndum sínum sem samsvarar þeim afborgunum sem hann hefði annars þurft að greiða á lánstímanum.

Ókosturinn felst hins vegar í hárri lokagreiðslu þar sem greiða þarf upp allan höfuðstólinn í einni greiðslu. Algengast er að lántakandinn endurfjármagni þá lánið.