Kólera

Bakteríusýking í smáþörmum

Kólera er bakteríu-smitsjúkdómur sem berst inn í líkamann með menguðu vatni eða matvælum[1]. Bakterían (Vibrio choler) myndar eiturefni sem festist í slímhúð þarmanna[1]. Kólera getur valdið gríðalegum niðurgangi á stuttum tíma og einnig alvarlegu vökvatapi og vatnsskort. Ef ekki er brugðist nógu fljótlega við getur fólk dáið. Bráð kólerusýking getur leitt fólk til dauða 2-3 klukkustundum frá því að fyrstu einkenni koma fram, en algengara er að það taki um 18 klukkustundir[1]. Meðgöngutíminn er mjög stuttur en er hann einungis 1-5 dagar.[1]

Það getur verið flókið að greina kóleru frá öðrum gerðum af bráðaniðurgangi út frá einkennum og viðbrögðum eingöngu, þess vegna þarf að rækta sýkilinn úr blóð- eða saursýnum sjúklinga til að staðfesta að kólera sé sjúkdómurinn[1]. Kólera dreifist með menguðu vatni og matvælum. Þegar skyndilega koma upp miklir kólerufaraldrar er orsakarinnar oftast að leita í menguðum vatnsbólum. Niðurgangurinn getur fyllt í allt 1 lítra á klukkustund, lyktin minnir á fiskifýlu og í útliti minnir hann helst á vatn með flekkjum af hrísgrjónum[1]. Þessir flekkir eru í raun slím ásamt sýkli og þekjuvef. Sjúklingarnir missa ekki bara vatn heldur missa þeir líka mikið af nauðsynlegum söltum. Ofþornunin lýsir sér á mjög marga hætti og er það meðal annars hraður hjartsláttur, sokkin augu og mikill þorsti[2].

Mestan hluta 20. aldar var kólera ekki þekkt í vesturheimi en skaut síðan aftur upp kollinum við lok aldarinnar. Kóleru-bakterían var fyrst einangruð og borin kennsl á af Ítalanum Filippo Pacini 1854[3]. Fyrstu einstöku bólusetninguna framkvæmdi og þróaði spænski læknirinn og bakteríusérfræðingurinn Jaume Ferran i Clua 1885, sem ennfremur var þar með fyrsti einstaka bakteríu-bólusetning manneskju en áður hafði aðeins tekist að bólusetja gegn vírusum[4].

Áætlað er að 1,3–4 milljón einstaklinga veikjast af kóleru árlega og 21.000–143.000 deyja[5]. Langflest tilfelli eru í þróunarlöndum og þá einkum Afríku sunnan Sahara[5]. Erfitt er að áætla nákvæmlega fjölda árlegra tilfella vegna vangetu ríkja til að skrá niður tilfelli ásamt því að ríkji hræðast áhrif þess á ferðaiðnað og önnur viðskipti[6].

Til eru bóluefni gegn kóleru með þokkalegri virkni en þau eru ekki á skrá á Íslandi. Samkvæmt íslenskum lögum er skylda að tilkynna smit um kóleru til landlæknis[7].

Heimildir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Hvaða áhrif hefur kólera á líkamann?“. Vísindavefurinn. Sótt 27. febrúar 2023.
  2. Kanungo, Suman; Azman, Andrew S.; Ramamurthy, Thandavarayan; Deen, Jaqueline; Dutta, Shanta (9. apríl 2022). „Cholera“. The Lancet (enska). 399 (10333): 1429–1440. doi:10.1016/S0140-6736(22)00330-0. ISSN 0140-6736. PMID 35397865.
  3. Lippi, Donatella; Gotuzzo, Eduardo; Caini, Saverio (2016-08). „Cholera“. Microbiology Spectrum. 4 (4). doi:10.1128/microbiolspec.PoH-0012-2015. ISSN 2165-0497. PMID 27726771.
  4. Bornside, George H. (1981). „JAIME FERRAN AND PREVENTIVE INOCULATION AGAINST CHOLERA“. Bulletin of the History of Medicine. 55 (4): 516–532. ISSN 0007-5140.
  5. 5,0 5,1 Mohammad Ali, Allyson R. Nelson, Anna Lena Lopez, David A. Sack (júní 2015). „Updated Global Burden of Cholera in Endemic Countries“. PLOS Neglected Tropical Diseases. Sótt febrúar 2023.
  6. „Cholera“. www.who.int (enska). Sótt 27. febrúar 2023.
  7. Embætti Landlæknis. „Smitsjúkdómar A-Ö“.