Kínverska tímatalið
Kínverska tímatalið er sólbundið tungltímatal (sem tekur mið af gangi bæði sólar og tungls). Í dag er notast við gregoríska tímatalið í Kína en kínverska tímatalið er enn notað til að staðsetja hátíðir eins og tunglhátíðina og áramót. Það er einnig notað til að staðsetja daga sem þykja heppilegir til að gifta sig t.d. eða opna nýja byggingu. Af því að mánuður í kínverska tímatalinu fylgir gangi tunglsins segir það nokkuð um tunglkvartil.
Í kínverska tímatalinu hafa líka árin dýraheiti sem ganga í tólf ára hring; Árin eru þannig (í þeirri röð) ár rottunnar, nautsins, tígursins, kanínunnar, drekans, slöngunnar, hestsins, kindarinnar (eða geitarinnar), apans, hanans, hundsins og svínsins. 29. janúar 2006 hófst þannig ár hundsins og á kínversku áramótunum 2007 hófst ár svínsins.