Kálfatjörn er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum. Kirkjan tilheyrir Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Prestur Ástjarnarkirkju messar þar.

Kálfatjarnarkirkja.

Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa. Núverandi kirkjubygging var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar, en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð.