Janet Kay (f. 17. janúar 1958) er bresk söngkona og leikkona sem er þekktust fyrir elskendarokksmellinn „Silly Games“ frá 1979 og fyrir hlutverk sitt í bresku gamanþáttunum No Problem! á 9. áratug 20. aldar. Árið 1984 átti hún annan danssmell með laginu „Eternally Grateful“.

Hún hóf söngferil sinn með reggíútgáfu af bandaríska sálarlaginu „Lovin' You“ sem jamaíski tónlistarmaðurinn Alton Ellis framleiddi og kom út árið 1978. Árið eftir kom lagið „Silly Games“ út og náði miklum vinsældum í Evrópu, en það var samið og framleitt af Dennis Bovell. „Silly Games“ náði í 2. sæti breska vinsældarlistans.

Kay var ein af stofnendum leikkvennahópsins BiBi Crew árið 1991 sem kom oft fram í Theatre Royal Stratford East í Newham í London.