Ihara Saikaku var japanskt ljóðskáld og skapaði fljótandi veraldar stíltegundina í japönskum skáldskap(ukiyo-zōshi).

Ihara Saikaku

Fæðingarnafn Ihara var Hirayama Tōgo (平 山藤 五), og hann var sonur auðugs kaupmanns Osaka. Hann lærði haikai-ljóðagerð undir leiðsögn Matsunaga Teitoku og síðar Nishiyama Sōin af Danrin-skólanum, sem lagði megináherslu á tengiljóð. Ihara Saikaku er frægur fyrir að geta samið gríðarlegt magn ljóða í einu. Hann er talinn hafa samið 16,000 ljóð á einni samkomum samkvæmt sumum heimildum og allt að 23,000 samkvæmt öðrum.

Síðar á lífsleiðinni byrjaði hann að skrifa erótískar og gamansamar sögur um meðlimi kaupmannsstéttarinnar sem eyddi tíma sínum í að fara í leikhús, vændishús og sólunda peningum sínum í hinum „fljótandi heimi“ gleðihverfa borga á borð við Osaka og Edo.

Ævisaga

breyta

Ihara Saikaku fæddist árið 1642 í vel stæðri kaupmannafjölskyldu í Osaka. Frá fimmtán ára aldri samdi hann haikai no renga (tengikvæði eða tengihækur). Árið 1662, tvítugur að aldri, gerðist hann haikai meistari og festi sig í sessi með pennanafninu Ihara Kakuei. Árið 1670 hafði hann þróað sérstakan stíl og notaði alþýðlegt mál til að lýsa lífi venjulegra borgara eða svo kallaðra chōnin (bæjarbúa). Á þessum tímapunkti vann hann fyrir sér með viðskiptum í Osaka.

Árið 1673 breytti hann pennanafninu í Saikaku. Svo virðist sem andlát eiginkonu hans árið 1675 hafi rist mjög djúpt en nokkrum dögum síðar samdi Saikaku þúsund erinda haikai ljóð á innan við sólarhring. Verkið var gefið út undir titlinum Þúsund erindi á einum degi(Haikai Dokugin Ichinichi) og var fyrsta tilraun Saikaku til að skrifa verk í þessari lengd. Reynslan af því og velgengni Saikaku í kjölfarið er talin hafa ýtt undir áhuga hans á að skrifa skáldsögur.

Stuttu eftir andlát konu sinnar ákvað Saikaku að gerast munkur og ferðaðist um Japan. Börnin hans urðu eftir í Osaka í umsjá stórfjölskyldunnar, en Saikaku lagði þó ekki af stað fyrr en eftir andlát dóttur sinnar, sem var blind.

Árið 1677 sneri Saikaku aftur til Osaka. Upp frá því vann hann alfarið fyrir sér sem rithöfundur, í fyrstu með haikai-ljóðagerð en árið 1682 gaf hann út líf ástsjúks manns (Kōshoku ichidai otoko 好色一代男), sem var sú fyrsta af mörgum skáldsögum sem hann átti eftir að skrifa. Saikaku varð fljótt eitt af mest seldu skáldum samtíma síns, en eins og með marga metsöluhöfunda var oft litið niður á verk hans fyrir að vera of alþýðleg.