Igaliku er byggðakjarni í byggðarlaginu Narsaq á Suður-Grænlandi með um 50 íbúum. Hann er um 34 km norðaustur af Narsaq-þorpinu. Igaliku stendur á sama stað og höfuðból og biskupssetur Grænlendinga hinna fornu sem nefnt var Garðar. Þar er enn að finna miklar rústir frá tímum norrænna manna en í lok 15. aldar hurfu norrænir íbúar Grænlands og Garðar fóru í eyði.

Heyskapur í Igaliku

Igaliku byggðist að nýju 1782 þegar Norðmaðurinn Anders Olsen ákvað að setjast þar að og hefja kúa- og sauðfjárbúskap. Anders átti grænlenska konu, Tuparna að nafni. Afkomendur þeirra hafa búið í Igaliku óslitið síðan. Stunda þeir landbúnað og eru sauðfjárbændur. Allt fé er af íslenskum stofni og einnig þeir hestar sem bændur hafa, aðallega til smölunar. Engar kýr eru nú á Grænlandi.