Meistari (iðnaðarmaður)
(Endurbeint frá Iðnmeistari)
Meistari eða iðnmeistari er iðnaðarmaður sem hlotið hefur meistararéttindi, ýmist með því að þreyta meistarapróf sem stundum felur í sér gerð meistarastykkis, eða með öðrum hætti (til dæmis með því að sýna fram á áralangt starf að greininni). Meistarabréf er vottorð um að viðkomandi sé meistari í sinni iðn. Reglur um meistararéttindi eru ólíkar milli iðngreina og á síðustu áratugum hefur orðið sífellt algengara að gera kröfu um sérstakt meistaranám þeirra sem hyggjast þreyta meistarapróf.
Á miðöldum var meistarinn sjálfstæður iðnaðarmaður sem átti verkfæri og rak verkstæði, tók að sér lærlinga og veitti sveinum vinnu. Hann einn gat verið fullgildur félagi í iðngildi þar sem slíkt kerfi var við lýði.