Hof er nafn trúarhúss í fornnorrænni trú og menningu. Örnefni benda til þess að hof hafi verið víða fyrir yfirtöku abrahamískar menningar og trúar á norðurlöndum. Í dag nota íslendingar nafnið hof yfir trúarhús allra fornra menningarheima sem ekki heyra undir abrahamísk trúarbrögð. Mörg bæjarheiti á Íslandi draga nafn sitt af orðinu eins og til dæmis Hof í Öræfum og Hofstaðir í Mývatnssveit.

Uppakra hofið í Svíþjóð, endurbyggt eftir forleifum. Hofið er talið hafa verið uppi á Vendel tímabilinu, milli 500 og 800.

Lýsing

breyta

Þær lýsingar sem við höfum af hofum eiga flestar uppruna sinn í Íslendingasögum. Aðrar heimildir eins og til dæmis verk Adams frá Bremen, lýsa hvernig heiðnir menn tilbáðu í skógum og lundum og höfðu ekki trúarlegar byggingar.[1] Með ýtarlegri lýsingum á hofi er í Eyrbyggja sögu þar sem er sagt frá hofi byggðu af Þórólfi Mostrarskeggi á Hofstöðum í Breiðafirði:

„Voru dyr á hliðvegginum og nær öðrum endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er sæfð voru þau kvikindi er goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu.“[2]

Í Vatnsdæla sögu er sagt frá Ingimundi Gamla sem "reisti hof mikið hundrað fóta langt"[3] (um 31,4 metrar) og í Kjalnesinga sögu reisir Þorgrímur Helgason hof „hundrað fóta langt en sextugt á breidd“.[4] Þetta gæti þýtt að hof reist á Íslandi hafi verið svipuð að stærð.

Fornleifarannsóknir

breyta

Á 19. öld þegar áhugi á fornleifum fór vaxandi meðal fræðimanna voru þingstaðir, hof og dómhringir meðal helstu rannsóknarefna manna. Á þessum tíma höfðu sjálfstæðisbarátta Íslendinga og rómantíska hreyfingin mikil áhrif á hug manna. Lýstu sumir fræðimenn því yfir að rannsóknum þeirra væri ætlað að sannreyna tilvist staða nefnda í Íslendingasögum og með þeim hætti sýna fram á trúverðuleika sagnanna.[5] Raunin hefur verið sú að meintir dómhringir og hof, bæði á Íslandi og á meginlandinu, hafa oftast einfaldlega verið fjárhústóftir eða bæir. Eins og er talið að ekki hafa fundist neinar byggingar sem er vitað fyrir víst að hafi þjónað eingöngu sem hof.[6]

Hofstaðir í Mývatnssveit

breyta

Með þekktari meintum hofum eru Hofstaðir í Mývatnssveit. Fyrstur til að grafa þar var danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun árið 1908. Hann fann skála sem var 45 metrar á lengd og 10-12 metra breidd, sem er næstum tvöfalt lengri en flestir aðrir skálar sem fundist hafa, og einnig var sérherbergi á norðurenda skálans. Suð-vestan við stóra skálann sáust leifar af því sem virtist vera annar, minni skáli sem var um 11 metrar að lengt og 9 metrar að breidd. Bruun gróf lítillega í skálann sem var svo rannsakaður nánar á árunum 1992-2002, kom í ljós leifar af eldstæði sem virtist benda til þess að búið hafði verið í þessum skála. Við suðurenda skálans fannst stór gryfja 7x6 metrar, sem þeir gátu ekki útskýrt öðruvísi en væri öskuhaugar, seinna hefur þó verið sýnt fram á að þarna eru leifar af jarðhúsi.[7] Örnefnið „Hofstaðir“, stærð skálans og sérherbergið sem Bruun túlkaði sem innrahof leiddi til þess að hann taldi sig hafa fundið hof.[8] Þó voru efasemdir um verk og túlkun Bruuns og árið 1965 gróf annar Dani að nafni Olaf Olsen á Hofstöðum. Túlkun Olsens var að Hofstaðir hefðu bæði verið bær og hof. Skilgreining hans á hofum var því að þau hefðu einfaldlega verið býli þar sem fólk bjó en einnig þar sem trúarlegar athafnir og veislur fóru fram.[9] Það reyndist Olsen þó erfitt að aldursgreina þær minjar sem hann fann við uppgröftinn. Gjóskulög hafa þó sýnt fram á að elsti partu tóftarinnar er frá 9. öld og sá yngri frá þeirri 10. Nýlegur uppgröftur frá 1992-2001[10] styður þessa hugmynd Olsens. Í þeim uppgreftri fannst mikið magn dýrabeina, þar á meðal ungnautgripir sem höfðu verið drepnir með höggi milli augnanna og þeir síðan hálshöggnir. Hornin voru skilin eftir á höfuðkúpunum og sýndu þær veðrun á yfirborði sem gefur í skyn að þær hafi verið geymdar lengi eftir að dýrin voru drepin.[11] Bendir þetta til trúarlegra athafna. Einnig kom í ljós að aðaleldstæðið var fremur lítið, miðað við rými skálans og að staðsetning hans var ekki góð fyrir bóndabæ. Skálinn lá fremur hátt yfir sjávarmáli við upphaf hlíðar, sem væntanlega hefur skapað vandræði að vetri til vegna snjóa og leysinga á vori. Yngri bæjarleifar liggja lægra í landi Hofsstaða og í allt að 200 metra fjarlægð frá skálanum. Hins vegar hefur staðsetning skálans gert hann sýnilegan og góðan aðkomustað fyrir sveitina í kring.[12] Þessar niðurstöður benda til þess að á Hofstöðum hafi verið bæði bær og samkomustaður eins og Olsen hélt fram. Olsen hélt því einnig fram að gryfjan við suðurendan hafi verið utandyra eldstæði þar sem þar fundust mikið af kolarleifum og dýrabeinum. Við nánari skoðun á gryfjunni við suðurenda tóftarinnar datt þessi kenning alveg út, en einnig fundust í gryfjunni vel varðveitt greiða úr beinum sem og perlur og annarskonar munir sem samræmdust daglegu lífi á víkingaöld.[13] Áherslur uppgraftarins 1992-2002, sem gerður var á vegum Fornleifastofnunar Íslands og stjórnað af þeim Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson breyttust nokkuð frá því að vera rannsókn á hofstað frá víkingaöld yfir að vera gott rannsóknarefni um hvernig byggingar þróuðust á vikingaöld. Þar sem gryfjan sem liggur sunnan við aðaltóftnina reyndist vera nokkuð eldri en aðaltóftin sjálf, eða samkvæmt rannsóknum á gjóskulögum er hún frá 9. öld, hafa menn haft uppi getgátur um að þarna hafi verið grafinn bráðabyrgðaskáli á meðan sá stóri var í byggingu en þetta tíðkaðist á vikingaröld. Einnig sýndu gjóskulagarannsóknin fram á að notkun þess hafi verið hætt vel fyrir 1100, sem rennir enn fremur stoðum undir þá kenningu. [14]

Deilur um tilvist hofa

breyta

Fram á miðja 20. öld voru fræðimenn gjarnan sannfærðir um að staðir með örnefnið „hof“ á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð væru vísbendingar um helgihús heiðinna manna. Niðurstöður fornleifafræðirannsókna sýndu hins vegar að hér var yfirleitt aðeins um að ræða venjulega skála og bæjarstæði.[15] Settu þá sumir fram þá tilgátu að heiðnu hofunum hefði verið breytt í kirkjur með komu kristinnar trúar. Sú kenning reyndist ólíkleg þar sem þær kirkjur sem hafa verið skoðaðar benda ekki til þess að þar hafi verið hof áður fyrr.[16] Tillaga Olaf Olsens um að bæir stórbænda hafi verið notaðir sem hof virðist mest sannfærandi miðað við stöðu þekkingar í dag.

Tilvísanir

breyta
  1. Terry Gunnell, "Hof, Halls, Goðar and Dwarves: An Examination of the Ritual Space in the Pagan Icelandic Hall" Geymt 4 október 2011 í Wayback Machine Cosmos 17 2001. 3-36. Bls. 5
  2. "Eyrbyggja saga" Geymt 3 febrúar 2013 í Wayback Machine Kafli 4. Sótt 04.03.13.
  3. Vatnsdæla saga. Kafli 4. Sótt 04.03.13. http://sagadb.org/vatnsdaela_saga Geymt 20 september 2012 í Wayback Machine
  4. Kjalnesinga saga. Kafli 2. Sótt 04.03.13. http://sagadb.org/kjalnesinga_saga Geymt 20 september 2012 í Wayback Machine
  5. Birna Lárusdóttir. Mannvist. Reykjavík. Opna. 2011. Bls. 17.
  6. Terry Gunnell. Bls. 4.
  7. Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson, „Hofstaði í Mývatnssveit uppgraftarksýrsla 1996“ Geymt 22 mars 2016 í Wayback Machine, bls. 5-6.
  8. Gavin Lucas og Thomas McGovern, „Bloody Slaughter: Ritual Decapitation and Display at the Viking Settlement of Hofstaðir, Iceland,“ European Journal of Archaeology 10:1. 2007. Bls. 8.
  9. Terry Gunnell. Bls. 4
  10. „Hofstaðir.“ Fornleifastofnun ͍slands. Sótt 04.03.13. http://www.fornleif.is/midlun/netverkefni/arena/gogn/hofstadir/
  11. Gavin og McGovern. Bls. 10-11.
  12. Gavin og McGovern. Bls. 20-22.
  13. Paul Buckland, Phil Buckland, Ingrid Mainland, Tom McGovern [1] Geymt 22 mars 2016 í Wayback Machine"Report of Area G Excavation Team" Bls. 4-5
  14. Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson, „Rannsókn á fornbýli á Hofstöðum í Mývatnssveit“ [2] Geymt 22 mars 2016 í Wayback Machine bls. 6.
  15. Terry Gunnell. Bls. 3.
  16. Terry Gunnell. Bls. 4.