Hlöðskviða er stundum talin eitt af Eddukvæðum en hún er varðveitt í bútum í Hervarar sögu og Heiðreks og mun þar vera um að ræða brot af lengra kvæði. Hlöðskviða segir frá styrjöld Gota og Húna. Fyrsta erindið telur upp konunga þjóðflokkanna og er Húnakonungur þar nefndur Humli.

„Ár kváðu Humla
Húnum ráða
Gissur Gautum
Gotum Angantýr
Valdar Dönum
en Völum Kjár.
Alrekur inn frækni
enskri þjóðu.“

Heiðrekur Gotakonungur átti tvo syni, Angantý, sem var skilgetinn og erfði ríkið og Hlöð, sem hann hafði átt með dóttur Humla Húnakonungs og hafði alist upp í ríki Húna. Hlöður krafðist þess að fá hálft ríkið í arf eftir föður þeirra en Angantýr neitaði en bauð honum þriðjung. Hlöður móðgaðist og varð það tilefni styrjaldarinnar.

Hervör systir Angantýs konungs og hálfsystir Hlöðs stýrði landvörnum Gota og féll hún í fyrstu orrustunni, skammt frá skóginum Myrkviði. Angantýr kom þá með her sinn gegn liði Húna, sem þeir Hlöður og Humli konungur stýrðu, og voru hún í fyrstu tvöfalt fleiri en stöðugt bættist í lið Gota og eftir átta daga orrustu brast flótti í lið Húna, en þá voru bæði Hlöður og Humli fallnir. Þá kvað Angantýr, þegar hann fann Hlöð bróður sinn dauðan:

„Bauð eg þér bróðir
basmir óskertar,
fé og fjöld meiðma,
sem þig fremst tíddi
nú hefir þú hvorki
hildar að gjöldum
ljósa bauga
né land ekki
Bölvað er okkur, bróður,
bani em og þinn orðinn;
það mun enn uppi;
illur dómur norna“

Tenglar

breyta