Fjárhirðir

(Endurbeint frá Hirðir)

Fjárhirðir, hirðir eða smali er sá sem annast umhirðu sauðfjár, geita) eða annara húsdýra svo sem gæslu, smölun og fóðrun.

Fjárhirðir í Rúmeníu

Fjárhirðar hafa verið til allt frá því að sauðfé var fyrst tamið, líklega í Mið-Austurlöndum fyrir um 10.000 árum, og má því segja að starf fjárhirðisins sé ein elsta starfsgrein mannkynsins. Fjárhirðar eru margoft nefndir í Biblíunni (Davíð konungur er til dæmis sagður hafa verið fjárhirðir upphaflega) og oft notaðir í líkingum þar, svo sem Góði hirðirinn.

Eitt meginhlutverk fjárhirða í mörgum löndum hefur löngum verið að gæta hjarðarinnar fyrir rándýrum og ræningjum. Íslenskir fjárhirðar eða smalar fyrri alda þurfti fremur að gæta sauða sinna fyrir náttúruöflum, smala þeim saman og reka í skjól í vondum veðrum. Eftir fráfærur sátu smalar - oftast börn eða unglingar - yfir kvíaánum, stundum dag og nótt en stundum aðeins á daginn, til að þær tvístruðust ekki og færu að leita að lömbum sínum. Þegar fé var beitt úti á vetrum stóðu fjármenn eða sauðamenn oft yfir því allan daginn og ráku það svo í hús að kvöldi. Það gat verið mjög erfitt starf, því reynt var að beita fénu hvernig sem viðraði og stundum þurfti sauðamaðurinn jafnvel að moka snjó ofan af grasinu fyrir það. Voru fjárhirðarnir því oft mikil hraustmenni. Eftir að féð var komið á hús þurfti sá sem hirti það líka að vitja þess daglega, gefa á garðann og brynna.