Harðsperrur
Harðsperrur eru afleiðing skemmda sem verða í vöðvum þegar þeir framkvæma vinnu. Harðsperrur koma helst þegar vöðvi myndar kraft um leið og hann lengist en það kallast eftirgefandi vöðvastarf eða bremsukraftur. Vöðvasýni úr vöðva einstaklings sem finnur fyrir harðsperrum sýnir að vöðvafrumurnar eru skemmdar og venjulegri uppröðun samdráttarpróteina frumanna er raskað. Einnig finnast í blóðsýnum prótein og önnur efni sem venjulega eiga aðeins að finnast inni í vöðvafrumunum. Sýnir það að frumuhimna vöðvafruma hefur rofnað eða orðið lek.
Harðsperrurnar koma oft ekki fram fyrr en nokkrum klukkutímum eftir að skemmdirnar eiga sér stað, þegar bólgusvörun og viðgerðarferli eru farin af stað í vöðvunum. Við það virðast losna boðefni sem erta sársaukataugar í vöðvunum og mynda sársaukann sem við köllum harðsperrur. Mjög misjafnt er þó hvað sársaukinn er lengi að koma fram. Rannsóknir hafa ekki getað sýnt fram á að myndun mjólkursýru í vöðvafrumum auki á neinn hátt líkur á vöðvaskemmdum né harðsperrum. Harðsperrur tengjast því ekki mjólkursýrumyndun í vöðvafrumunum eftir því sem best er vitað en útbreiddur misskilningur er að svo sé.
Vöðvafrumur og vöðvavefur hefur mjög mikla hæfileika til viðgerða og endurnýjunar. Vægar harðsperrur virðast því tiltölulega meinlausar þó að menn ættu að forðast mjög miklar harðsperrur. Þjálfun dregur úr skemmdum sem vöðvar verða fyrir í áreynslu og þar af leiðandi harðsperrum. Mælt er með teygjum til að minnka harðsperrur. [1] Er það þó umdeilt. [2]
Tilvísanir
breyta- ↑ Hvað eru harðsperrur? Hvað veldur þeim og hvernig má draga úr þeim? Vísindavefur. Skoðað 8. febrúar, 2016
- ↑ Is stretching before and after exercise necessary? BBC. Skoðað 13. mars, 2016.