Hannes Hlífar Stefánsson

Hannes Hlífar Stefánsson (fæddur 18. júlí 1972) er sjöundi og jafnframt einn fremsti stórmeistari Íslands í skák.

Hannes Hlífar Stefánsson
Hannes Stefansson.jpg
Upplýsingar
Fullt nafn Hannes Hlífar Stefánsson
Fæðingardagur 18. júlí, 1972
Fæðingarstaður   
Titill Stórmeistari
Stig 2561 (1. júní 2019)

Hans fyrsta stórafrek á alþjóðlegum vettvangi var þegar hann varð heimsmeistari unglinga 16 ára og yngri árið 1987, þá hlaut hann stórmeistaratitilinn árið 1993.

Hannes tók fyrst þátt á Íslandsmótinu í skák, Skákþingi Íslands, árið 1986. Hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1998 og aftur ári síðar, 1999. Hann vann átta sinnum í röð á árunum 2001-2008. Hann vann einnig árin 2010, 2013 (opið mót) og síðast í ár, árið 2019, en þá var mótið opið mót. Hann hefur orðið Íslandsmeistari þrettán sinnum, oftar en nokkur annar. Hann hefur verið duglegur að taka þátt, hann hefur ekki verið með í fimm skipti síðan hann tók fyrst þátt árið 1986, en þá var hann fjórtan ára. Hann hefur keppt 29 sinnum um titilinn.

Sumarið 1990 varð Hannes efstur á alþjóðlegu móti, sem haldið var í fjallahótelinu í Gausdal í Noregi, en þar voru um skeið haldin alþjóðleg mót nokkuð reglulega og fóru margir íslenskir skákmenn í víking þangað. Hannes var efstur með 7,5 vinninga af 9, en næstir komu Kotronias með 7 vinninga, Tsjekhov, Jurtajev, Kovalev og Ernst með 6,5, keppendur voru 88. Þarna náði Hannes sínum fyrsta stórmeistaraáfanga. [1]

Hannes náði öðrum áfanga að stórmeistaratitli á alþjóðlegu móti í Hafnarborg, Hafnarfirði, en þar varð hann efstur með 8 1/2 vinning af 11 mögulegum, en þetta var lokað mót, keppendur voru 12.  [2]

3. áfanganum að stórmeistaratitli náði Hannes svo á ólympíumótinu, sem haldið var sumarið 1992 í Manila á Filipseyjum, en þar tefldi hann sem fyrsti varamaður. Þetta var í fyrsta skipti, sem Hannes tefldi á ólympíumóti og hann náði 3. besta árangri á sínu borði. Hannes hefur ávallt tekið þátt á ólympíumótum síðan þá og eru mótin orðin 14, þar af hefur Hannes tíu sinnum telft á 1. borði. [3][4]

Hannes tefldi fyrst á Reykjavíkurskákmótinu árið 1986, þá var hann á fjórtánda ári. Hann hefur ávallt tekið þátt síðan þá og eru mótin orðin 23. Hannes varð efstur á opna Reykjavíkurmótinu ásamt Pigusov og Zvjaginsev með 7 vinninga af 9 árið 1994 en þátttakendur voru 62.[5] Hannes vann Reykjavíkurmótið árið 2000 með 7,5 vinninga af 9. Næstu menn náðu 6,5 vinningum, en þar á meðal voru Short, Kortsnoj og Grischuk. Þátttakendur voru 76.[6] Árið 2008 varð Hannes efstur á Reykjavíkurmótinu ásamt kínversku stórmeisturunum Wang Hao og Wang Yue með 7 vinninga af 9, en þáttakendur voru 90.[7] Árið 2009 var Reykjavíkurmótið haldið á oddatöluári í fyrsta sinn og Hannes varð efstur með 7 vinninga ásamt Héðni Steingrímssyni, Júrí Kryvorucko og Mihail Marin, en þátttakendur voru 110. Árið eftir eða 2010 varð Hannes efstur á Reykjavíkurmótinu með 7 vinninga ásamt Ivan Sokolov, Júrí Kuzubov og Abhijeet Gupta, þátttakendur voru 104.[8]

Hannes vann sigur á alþjóðlegu móti í Aþenu sumarið 1993. [9] Meðal annarra sigra á alþjóðlegum mótum má nefna: efsta sæti á Kópavogsmótinu árið 1994. [10] Efsta sæti á Friðriksmótinu, afmælismóti Skáksambands Íslands árið 1995, haldið í þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík. [11] Hannes endaði í 1. -5. sæti á Politiken-mótinu sumarið 1998 og var úrskurðaður sigurvegari, skv. stigum. [12] Efstur á Lost boys mótinu í Antwerpen, Belgíu árið 1998. [13]

HeimildirBreyta

 1. „Fyrsti stórmeistaraáfanginn, Gausdal 1990“ (PDF).
 2. „Annar stórmeistaráfanginn, Hafnarborg 1992“ (PDF).
 3. „Besti árangur, sem Ísland hefur náð á Ólympíumóti, fyrri hluti“ (PDF).
 4. „Besti árangur, sem Ísland hefur náð á Ólympíumóti, seinni hluti“ (PDF).
 5. „Hannes Hlífar í 1.-3. sæti á Reykjavíkurskákmótinu“ (PDF).
 6. „Hannes sigrar örugglega á Reykjavíkurmótinu árið 2000“ (PDF).
 7. „Þriðji sigur Hannesar á Reykjavíkurskákmóti“ (PDF).
 8. „Fimmti sigur Hannesar Hlífars á Reykjavíkurskákmóti“ (PDF).
 9. „Hannes vann 7 fyrstu skákirnar í Aþenu“ (PDF).
 10. „Hannes vinnur Kópavogsmótið árið 1994“ (PDF).
 11. „Sigur á Friðriksmótinu 1995“ (PDF).
 12. „Sigur á Politiken 1998“ (PDF).
 13. „Sigur á Lost boys mótinu í Antwerpen 1998“ (PDF).

TenglarBreyta