Hafsteinn Austmann (fæddur 19. júlí 1934) er íslenskur abstrakt myndlistamaður sem vinnur aðallega með vatnsliti, acrylliti og olíuliti.

Æviágrip

breyta

Hafsteinn Austmann fæddist á Ljótsstöðum í Vopnafirði 19. júlí 1934. Strax í gagnfræðaskóla var afráðið hvert skyldi stefnt. Árið 1951 innritast hann í Myndlistarskólann í Reykjavík og á árunum 1952-54 stundaði hann síðan nám í Handíða- og myndlistaskólanum.    Hleypti hann þá heimdraganum og innritaðist í Academi de la Grande-Chaumiér í París, þar sem hann stundaði framhaldsnám í einn vetur. Á þessum tíma var Nína Tryggvadóttir þegar orðin þekktur listamaður í París. Hún sýndi hinum unga landa sínum vinsemd og áhuga. Það var fyrir hennar tilstilli að Hafsteini var boðið að sýna með hinum virta sýningarhóp Realitiés Nouvelles í París vorið 1955. Hafsteinn hafði kynnst hinni geometrísku afstraktlist í París og tileinkaði sér nú þá liststefnu. Í stað þess að tryggja sig frekar í sessi meðal kollega í París heldur Hafsteinn aftur heim til Íslands.

    Fyrstu sjálfstæðu sýninguna sína hér á landi opnar Hafsteinn svo í Listamannaskálanum árið 1956. Á sýningunni voru 70 verk unnin í margvísleg efni; olíumyndir, vatnslitamyndir og guachemyndir, auk verka unnum í tré. Þessi fyrsta sýning Hafsteins vakti mikla athygli og fékk lofsamlega dóma. Hjörleifur Sigurðsson skrifaði m.a. um þá sýningu: „Þótt Hafsteinn Austmann hafi ekki málað lengi, kveður hann sér hljóðs á þann hátt, að menn hljóta að leggja við hlustirnar. Af eldri myndum varð fátt ráðið um hæfileika hans en nýju olíumálverkin taka af allan vafa. Hér er gott málaraefni á ferð. Einkum virðist litakenndin upprunaleg, eins og raunar hjá flestum íslenskum málurum sem einhver töggur er í“.


 Á þessum árum vann Hafsteinn jöfnum höndum með olíulitum og vatnslitum, en eftir sína aðra sjálfstæðu sýningu í Listamannaskálanum 1958 tók hann til við að mála eingöngu með vatnslitum. Afrakstur þeirrar vinnu sýndi hann svo í Bogasalnum vorið 1960. Hafsteinn hafði nú þróast frá dökkum og þungum flatarmálsmyndum, sem komu fram á fyrstu sýningu hans, yfir í léttar ljóðrænar afstraktmyndir. Sýningin vakti mikla athygli, sérílagi þar sem hér var á ferðinni ein fyrsta sýning hér á landi þar sem eingöngu voru sýndar vatnslitamyndir. Myndirnar voru skemmtilega ólíkar en mynduðu heildstæða sýningu.

Á árinu 1965 fór Hafsteinn í náms- og skoðunarferðir víða um Evrópu. Hann dvaldi um nokkurra mánaða skeið í Róm og heimsótti auk þess París, London, Amsterdam, Kaupmannahöfn og Stokkhólm. Áhrif og afsprengi þessarar ferðar mátti sjá á sýningu hans í Unuhúsi haustið 1966 — verkin voru nú rómantískari og formin frjálslegri. Samfara húsbyggingu og nýrri vinnustofu tekur nú við tímabil mikillar tilraunastarfsemi, ýmis ný efni eru notuð, en viðfangsefnið að öðru leyti hið samana. Á árunum 1968-69 dvaldi hann í tæpt ár í Árósum í Danmörku, málaði mikið og sýndi með sýningarhópnum „Guirlanden“. Næstu sýningu hér heima hélt hann á Kjarvalsstöðum vorið 1971. Þar kom hann fram þróttmeiri og djarfari en fyrr og mun léttara var yfir verkum hans. Svört form og línur byggja nú upp myndir hans og túlkun hans er persónulegri.

Hafsteinn hefur undanfarna áratugi unnið jöfnum höndum með vatnslitum, acryllitum og olíulitum. Hann hefur frá sínum fyrstu kynnum af afstraktlistinni haldið tryggð við hana, en hleypur ekki úr einum stíl í annan. Hann er átakamaður í list sinni og litameðferðin er hans sterka einkenni. Hann fer sér hægt og vinnur vel úr efniviðnum og ræður nú yfir meiri tækni en flestir okkar afstraktmálara. Hafsteinn er í stöðugri framþróun. Hann er trúr list sinni.

Árið 2013 opnaði Hafsteinn Austmann sýna fyrst heimasíðu: www.haustmann.is

Sýningar

breyta

Einkasýningar

breyta
  • 2007 Við Hafið Listasafn Reykjanesbæjar
  • 2004 Litbrigði vatnsins, Sýning í tilefni 70ára afmælis listamennsinsListasafn ASÍ
  • 1999 Kjarvalsstaðir
  • 1998 Akvarellur Stöðlakot
  • 1997 Akvarellur 1-6 Listþjónustan
  • 1996 Sjónarhóll
  • 1996 Sjónþing Gerðuberg
  • 1994 Norræna húsið
  • 1992 Nýhöfn, listasalur
  • 1992 Gallerí Orpheus
  • 1989 SCAG - Scandinavian Contemporary Art Gallery
  • 1989 Nýhöfn, listasalur
  • 1987 Gallerí Glugginn
  • 1984 Kjarvalsstaðir
  • 1984 Gallerí Íslensk list
  • 1983 Listasafn ASÍ
  • 1981 Kjarvalsstaðir
  • 1979 Vinnustofa Hafsteins Austmann
  • 1975 Loftið v/Skólavörðustíg
  • 1974 Kjarvalsstaðir
  • 1971 Bogasalur Þjóðminjasafnsins
  • 1968 Unuhús
  • 1966 Unuhús
  • 1964 Listamannaskálinn
  • 1960 Bogasalur Þjóðminjasafnsins
  • 1960 Gagnfræðaskólinn á Akureyri
  • 1958 Listamannaskálinn
  • 1956 Listamannaskálinn

Tenglar

breyta

Heimasíða

Information portal about Icelandic art and artists [1] Geymt 17 ágúst 2011 í Wayback Machine