Háskólinn í Reykjavík

(Endurbeint frá HR)

Háskólinn í Reykjavík (HR) er rannsóknar- og menntastofnun sem útskrifar nemendur úr sjö akademískum deildum, auk Háskólagrunns. Þær eru lagadeild, verkfræðideild, tölvunarfræðideild, iðn- og tæknifræðideild, sálfræðideild, íþróttadeild og viðskiptadeild. Við HR er jafnframt starfræktur Opni háskólinn í HR, sem sérhæfir sig í sí- og endurmenntun fyrir sérfræðinga og stjórnendur. Jafnframt geta nemendur sem vantar tilskilinn undirbúning stundað nám í Háskólagrunni HR sem er í frumgreinadeild og að því loknu sótt um grunnnám. Í stefnu HR segir meðal annars að hlutverk Háskólans í Reykjavík sé að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi.

Háskólinn í Reykjavík
Stofnaður: 1964
Gerð: Sjálfseignarstofnun
Rektor: Dr. Ragnhildur Helgadóttir
Nemendafjöldi: um 3.500
Staðsetning: Reykjavík, Ísland
Vefsíða
HR úr lofti.

Saga HR hefst með stofnun Tækniskóli Íslands árið 1964. Með tilvist hans var ætlað að brúa bilið milli iðnmenntunar og háskólanáms. Tækniskólinn var færður á háskólastig árið 2002 og tók þá upp nafnið Tækniháskóli Íslands. Þann 4. mars árið 2005 sameinuðust Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík undir nafni Háskólans í Reykjavík. HR hafði verið starfræktur frá 4. september árið 1998 og var starfsemi hans byggð á Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands (TVÍ) sem stofnaður var í janúar 1988. Háskólinn í Reykjavík var settur í fyrsta sinn undir nafninu Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. TVÍ varð önnur tveggja deilda hins nýja háskóla. Í janúar árið 2000 var ákveðið að breyta nafni skólans í Háskólinn í Reykjavík þar sem gamla nafnið þótti ekki nógu lýsandi fyrir starfsemi skólans.

Haustið 2001 hófst MBA-nám[1] við háskólann í samvinnu við háskóla beggja vegna Atlantshafsins. Haustið 2002 var lagadeild stofnuð. Árið 2005, við sameiningu Tækniháskólans og HR voru fjórar námsdeildir við háskólann; kennslufræði- og lýðheilsudeild, tækni- og verkfræðideild, viðskiptadeild og lagadeild. Haustið 2007 var fimmta deildin við HR stofnuð; tölvunarfræðideild en tölvunarfræðin sem var ein af stofndeildum skólans hafði þá um tveggja ára skeið verið innan tækni- og verkfræðideildar. Árið 2010 var starfsemi skólans flutt í húsnæði við Menntaveg 1 í Nauthólsvík. Starfsemi HR var þar með komin öll undir eitt þak. Það sama ár var deildum háskólans fækkað úr fimm í fjórar og var kennslufræði- og lýðheilsudeild lögð niður.

Rannsóknir

breyta

Við Háskólann í Reykjavík er lögð áhersla á að stunda alþjóðlega viðurkenndar rannsóknir. Árlega er gert ítarlegt mat á rannsóknarvirkni allra akademískra starfsmanna með rannsóknarskyldu við háskólann af fjögurra manna nefnd erlendra sérfræðinga. Helstu viðmið í þessu árlega mati eru birtingar á ritrýndum vettvangi, önnur rannsóknarstörf svo sem leiðbeiningar rannsóknarnema, þátttaka í alþjóðlegu rannsóknarstarfi og öflun rannsóknarfjár úr samkeppnissjóðum. Niðurstaða matsins er einnig lögð til grundvallar við skiptingu rannsóknarframlags ríkisins á milli deilda háskólans. Rannsóknarráð HR hefur yfirumsjón og ber ábyrgð á matinu en matið er mikilvægur þáttur í gæðaeftirliti rannsókna við háskólann.

Kennsla

breyta

Áhersla er lögð á fjölbreyttar kennslu- og námsmatsaðferðir, raunhæf verkefni, virka þátttöku nemenda og tengsl námsins við atvinnulíf og samfélag. Náminu í HR er ætlað að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun og sjálfstæðum vinnubrögðum. Kennslumat er lagt fyrir í öllum námskeiðum tvisvar á önn og árlega fer fram frammistöðumat þeirra starfsmanna sem sinna kennslu. Við háskólann starfar námsráð sem skipað er fulltrúum allra deilda og forstöðumanni kennslusviðs. Ráðið hefur m.a. það hlutverk að móta kennslustefnu og tryggja gæði kennslu. Auk þess starfa námsmatsnefndir í deildum sem móta stefnu í samræmi við heildarstefnu skólans.

Áhrif

breyta

Á hverju ári stunda núorðið um 3500 nemendur háskólanám við HR á grunn-, meistara- og doktorsstigi.

Háskólinn í Reykjavík er í samstarfi við íslenska og erlenda háskóla og ýmsar opinberar stofnanir sem fást við menntun og rannsóknir. Háskólinn hefur þar að auki gert samstarfssamninga við fyrirtæki og félög sem styrkja enn frekar tengsl háskólans við atvinnulífið. Þetta samstarf styður við nýsköpun í menntun og rannsóknum.

Þar að auki á HR í miklu og góðu samstarfi við grunnskóla og framhaldsskóla með ýmsum verkefnum. Oft er með þeim leitast við að kynna það líf og starf sem veggir HR hýsa og sýna ungmennum möguleikana sem háskólanám opnar, oftar en ekki í tæknigreinum. Dæmi um slík verkefni eru Hringekjan og Boxið - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna.

Nokkur „spin-outs“-fyrirtæki hafa verið stofnuð innan HR. Með þeim eru sköpuð verðmæti úr þeirri þekkingu sem verður til við rannsóknir og verkefnavinnu innan háskólasamfélagsins, til dæmis með því að skapa hátæknistörf. Fyrirtækjunum er komið á fót af nemendum og starfsmönnum háskólans með nauðsynlegum stuðningi HR. Dæmi um slík fyrirtæki eru Skema, fyrirtæki sem sérhæfir sig í forritunarkennslu barna og kennara, og Videntifier Technologies sem þróar leitarkerfi til að finna ólöglegt myndefni. HR er jafnframt virkur þátttakandi í fjölbreyttri þróun klasa og geira á Íslandi. Dæmi um slíka klasa eru Íslenski jarðvarmaklasinn, Ferðaþjónustuklasinn og Samband íslenskra leikjaframleiðenda.

Skipulag og stjórnun

breyta

Háskólinn í Reykjavík er hlutafélag og eru hluthafar og eignarhluti þeirra eftirfarandi: Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands 64%, Samtök iðnaðarins 24% og Samtök atvinnulífsins 12%. Háskólinn er rekinn sem sjálfseignarstofnun. Eigendur hafa ekki fjárhagslegan ávinning af rekstri hans og ekki er heimilt að greiða arð til hluthafa. HR er með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið sem m.a. kveður á um að ríkið greiði tiltekna upphæð fyrir hvern nemanda í skólanum. Jafnframt eru innheimt skólagjöld af nemendum.

Ábyrgð á rekstri HR er í höndum háskólaráðs sem kjörið er að bakhjörlum háskólans á aðalfundi til eins árs í senn. Háskólaráð skipar rektor HR sem kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur hans og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart háskólaráði. Rektor ræður forseta deilda, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn sem undir hann heyra. Dr. Ari Kristinn Jónsson var rektor Háskólans í Reykjavík frá 2009 til ársins 2021. Árið 2021 var Ragnhildur Helgadóttir skipuð nýr rektor Háskólans í Reykjavík.

Heimildir

breyta
  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2014. Sótt 11. febrúar 2014.

Tenglar

breyta