Hólabrík er altaristaflan í Hóladómkirkju. Hún er frá kaþólskum tíma og er í gotneskum stíl, að öllum líkindum gerð í Þýskalandi á 16, öld, enda er sagt að Jón Arason biskup hafi gefið kirkjunni hana á þriðja tug aldarinnar, þegar hann kom til landsins úr vígsluferð sinni.

Bríkin er 170 cm á hæð og 340 cm á breidd þegar hún er opin. Bríkin sjálf er úr eik, gifsuð, máluð og gyllt með blaðgulli en líkneskin, súlurnar og skrautverkið sem prýða hana eru útskorin úr kirsuberjaviði, gifsuð og máluð. Hún hefur varðveist vel miðað við aldur og málningin og blaðgyllingin eru að mestu upprunaleg, en gert var við bríkina á árunum 1985-1989 og hún færð eins nálægt upprunalegu formi og mögulegt var.

Þjóðsagan um Hólabríkina breyta

Haustið 1550 var Jón Arason, síðasti kaþólski biskup Íslands, hálshöggvinn í Skálholti ásamt sonum sínum. Vorið eftir komu hermenn sem Danakonungur hafði sent til landsins að Hólum og rændu verðmætum munum úr Hólakirkju, þar á meðal Hólabríkinni. En er þeir voru komnir hálfa leið til skips síns með bríkina, þá sliguðust hestarnir undan þyngdinni og hermennirnir gátu henni hana hvergi hreyft og urðu því að skilja hana eftir. Er Hólamenn komu til að sækja Hólabríkina segir sagan að hún hafi reynst þeim létt og hestarnir skokkuðu með hana aftur í kirkjuna.

Krossfestingin breyta

Aðalmyndverkið á miðbríkinni af krossfestingunni á Golgatahæð og í bakgrunni er sögu annars ræningjans á krossinum fléttað saman við. Auk þess sjást turnar Jerúsalemborgar. Hinn þjáði Guðssonur hneigir höfuðið niður til hægri handar sinnar í átt til ræningjans sem iðraðist gjörða sinna. Fyrir ofan ræningjann flýgur engill með barn (sál) til himnaríkis. Vinstra megin við Krist er ræninginn sem iðraðist ekki og fyrir ofan hann flýgur björn með barn (sál) til helvítis. Hendur og fætur ræningjana eru blóði drifnar og brotnar sem gefur vísbendingar um pyntingar áður en þeir fóru á krossinn.

Þrír englar flögra í kringum Krist og halda á bikurum sem blóð Krist drýpur í, þetta minnir á altarisgönguna þar sem drukkið er blóð Krists (messuvín). María Magdalena heldur um krossinn og horfir ástúðlega í átt til Jesús, á meðan Jóhannes postuli grípur Maríu Guðsmóður sem er við það að falla í öngvit af sorg. Hægra megin fyrir aftan Jóhannes eru tvær yngismeyjar frá Galíleu sem halda að sér höndum og horfa á. Hægra megin við krossinn eru tveir menn í marglitum klæðum og fyrir neðan þá eru brynjuklæddir riddarar á hestbaki, annar þeirra heldur á spjóti sem nær upp fyrir brjóst Krists. Þetta eiga að vera rómverskir riddarar þó klæðnaðurinn sé frá 15. öld eða svo.

Vinstra megin við krossinn er maður á hestbaki sem heldur á spjóti með svampi fylltum ediki. Á bak við Krossfestinguna sést ræninginn sem iðraðist ekki gjörða sinna í gylltum klæðum og síðan aftur í brúnum leppum, þar sem maður reiðir bjúgsverð yfir ræningjanum og ætlar að höggva.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • Þorsteinn Gunnarsson og Kristján Eldjárn (1993). ,,Um Hóladómkirkju”. Hólanefnd. Prentsmiðjan Oddi.
  • Sigurveig Guðmundsdóttir (1981). ,,Heilög Barbar”. Barbörusjóður. Prentsmiðjan Hólar hf.
  • Karl Sigurbjörnsson (1993). ,,Táknmál trúarinnar”. Steindórsprent Gutenberg hf. Reykjavík.
  • Kaþólsk heimasíða með upplýsingar um dýrlinga og postula [1][óvirkur tengill] Skoðuð 23.07.2005.
  • Um Hólabrík
  • Bríkin mikla frá Skálholti.