Gufufjörður er stuttur fjörður, sem gengur ásamt Djúpafirði inn úr Þorskafirði við norðanverðan Breiðafjörð. Fjörðurinn er svo grunnur að á fjöru tæmist hann svo eftir standa aðeins leirur. Skálanes skilur Gufufjörð frá Kollafirði til vesturs en Grónes er á milli Gufufjarðar og Djúpafjarðar til austurs.

Gufufjörður er í Landnámu sagður kenndur við Ketil gufu Örlygsson, landnámsmann, sem nam fjörðinn og Skálanes. Bjó Ketill í Gufudal upp af fjarðarbotninum. Þórhallur Vilmundarson prófessor hefur leitt að því líkur í grein í tímaritinu Grímni að Gufufjörður og önnur örnefni sem tengd eru Katli gufu eigi sér í raun náttúrulegar skýringar og bendir meðal annnars á að oft liggur þokuslæðingur yfir leirunum í Gufufirði á fjöru þótt annars sé heiðskírt og er það vegna uppgufunar frá leirunum.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.