Grundarkampur
Grundarkampur er gamli staðurinn þar sem verslun hófst og byggð myndaðist í Grundarfirði, en greint er frá skipakomum þangað allt frá Landnámsöld. En þarna höfðu kaupmenn aðstöðu á tímum einokunarverslunarinnar. Grundarkampur er í landi Grundar og var við suðaustanverðan botn Grundarfjarðar. Er þetta malarkampur, frekar hrjóstrugur og kaldur um að lita. Hinn 18. ágúst 1786 varð hann einn hinna sex kaupstaða sem stofnaðir voru með konungsúrskurði en hinir kaupstaðirnir voru Akureyri, Reykjavík, Ísafjörður, Eskifjörður og að síðustu Vestmannaeyjar. Þeir áttu að vera miðstöðvar fyrir iðnað, verslun og útgerðar hver í sínum landsfjórðungi.
Á Grundarkampi var verslun fram eftir 19. öld en missti hann þó kaupstaðarréttindi sín árið 1836 eins og allir hinir staðirnir fyrir utan Reykjavík, en hélt Grundarkampur þó verslunarstaðaréttindum sínum. Verslunarstaðurinn var síðan fluttur í Grafarnes, aðeins nær miðju fjarðarbotnsins, við lok 19. aldar og fékk löggildingu þar árið 1897.
Frakkar koma mikið við sögu í Grundarfirði og áttu þeir lengi samastað á Grundarkampi, allt að aldamótunum 1800. Þeir voru með kirkju, sjúkrahús og ýmiskonar þjónustu sem þeir buðu upp á við skipaflota sinn. Svo þegar Frakkar hættu rekstri sínum á Grundarkampi tóku þeir allar byggingar með sér sem og grófu upp jarðneskar leifar landa sinna og fluttu allt með sér. Má segja að þeir hafi flutt bæinn með sér í heilu lagi. Í dag er Grundarfjörður í vinabæjarsambandi við bæinn Paimpol á Bretagne skaga í Frakklandi. Til eru vinabæjarfélög í báðum bæjum, nokkrar götur beggja vegna Atlantshafsins bera Grundfirsk/Paimpolsk nöfn og margvíslegir hlutir ertu til vegna þessarar löngu sögu.
Á síðu Sjóminjar Íslands er talað aðeins um Grundarkamp í landi Grundar, en þar er sagt að fyrsta hús sem reist hafi verið þar hafi verið árið 1663 og hafi enn staðið þar á 18. öld. Kampurinn var friðlýstur árið 1985.[1]
Hægt er að fræðast meira um Grundarkamp í Eyrbyggjasögu.