Gildran
Heimildir skortir fyrir staðhæfingum í þessari grein. Ef þú vilt bæta við heimild vinsamlegast bættu þeim við undir nýrri fyrirsögn („Heimildir“) eða skildu eftir athugasemd á spjallsíðunni. |
Gildran er íslensk hljómsveit sem starfað hefur með hléum frá því hún var stofnuð árið 1985. Sveitin var stofnuð af þeim Þórhalli Árnasyni (bassaleikara), Birgi Haraldssyni (söngvara og gítarleikara) og Karli Tómassyni (trommuleikara). Þeir höfðu spilað lengi saman í öðrum hljómsveitum s.s. Venus, Party, Cosinus og Pass. Guðlaugur Falk (gítarleikari) bættist í hópinn árið 1990 og spilaði með þeim fram til 1992 þegar Sigurgeir Sigmundsson kom inn í bandið. Árið 1994 lagðist Gildran í dvala þegar Þórhallur og Sigurgeir fluttu út á land, en Birgir og Karl starfræktu dúettinn 66 á meðan. Gildran kom svo saman aftur árið 1998 og gaf þá út eitt lag, Veturinn verður hlýr á safnplötunni Maður lifandi. Aftur lagðist bandið í dvala, en Birgir, Karl og Sigurgeir stofnuðu þá Gildrumezz, ásamt Jóhanni Ásmundssyni úr Mezzoforte og spiluðu þeir lög Creedence Clearwater Revival. Árið 2000 kom Gildran saman enn á ný, nú með nýjum bassaleikara, Jóni Rafnssyni. Eiríkur Hauksson og Pétur Kristjánsson komu fram með sveitinni veturinn 2000-2001. Jóhann Ásmundsson tók svo við af Jóni Rafnssyni og kom hljómsveitin fram þannig skipuð fram til ársins 2002 þegar hlé varð á starfseminni. Enn tók Gildran við sér árið 2006 stutta stund, og svo aftur árið 2010 þegar þeir fögnuðu 30 ára afmæli sínu (sem miðast þá væntanlega við hljómsveitina Pass sem er fyrirrennari Gildrunnar). Vorið 2010 kom Þórhallur aftur inn í bandið og gaf sveitin út tónleikaplötu það ár ásamt nýju lagi, Blátt blátt. Sveitin starfaði áfram og árið 2012 gáfu þeir út lagið Eyjan og stefndu þeir á útgáfu nýrrar plötu árið eftir, en öllum að óvörum hættu þeir allri spilamennsku það ár. Gildran kom þó saman árið 2016 og spiluðu á styrktartónleikum fyrir Guðlaug Falk, fyrrum gítarleikara Gildrunnar. Einnig héldu þeir tónleika í Vestmannaeyjum árið 2018. Nú síðast komu þeir saman árið 2023 og hafa spilað síðan.
Hljómsveitin náði aldrei að verða ein af stóru böndum landsins, en gaf út nokkrar plötur og nokkur lög þeirra slógu í gegn, þar á meðal „Mærin“, „Vorkvöld í Reykjavík“, „Andvökunætur“, „Mærin“, „Chicas" og „House of the Rising Sun“. Heiti fjórðu plötunnar, Ljósvakaleysingjar, var nett skot á útvarpsstöðvar sem höfðu lítið spilað af tónlist sveitarinnar, að Rás 2 undanskilinni.
Hljómsveitin hitaði upp fyrir nokkrar erlendar hljómsveitir sem héldu tónleika hér á landi, þar á meðal Uriah Heep, Status Quo, Nazareth og Jethro Tull.
Plötur
breyta- Huldumenn (1987)
- Hugarfóstur (1988)
- Gildran (1989)
- Ljósvakaleysingjar (1990)
- Út (1992)
- Gildran í 10 ár (1997), safnplata
- Vorkvöld: Live 1. maí 2010