Geir Sigurðsson (f. 1969) er íslenskur heimspekingur sem einkum hefur beint sjónum sínum að evrópskri meginlandsheimspeki og kínverskri heimspeki. Hann lauk BA gráðu í heimspeki og félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1994, MA gráðu í heimspeki frá National University of Ireland (University College Cork) árið 1997 og doktorsgráðu (PhD) í heimspeki frá University of Hawaii at Manoa árið 2004. Á námstíma sínum dvaldi hann einnig í skiptinámi við bæði Freie Universität og Technische Universität í Berlín (1993-1995), var styrkþegi í kínverskunámi (Sinologie) við Christian-Albrechts-Universität í Kiel (1997-1998) og sömuleiðis styrkþegi í kínversku- og heimspekinámi við Renmin háskóla í Beijing (2001-2003).

Geir var ráðinn til félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri haustið 2005 og starfaði hann þar og í kennaradeild skólans til ársins 2007. Haustið 2007 var hann ráðin sem lektor við Hugvísindasvið (þá Heimspekideild) Háskóla Íslands og fengið það verkefni að setja á stofn námsleið kínverskra fræða sem hann hefur stýrt síðan. Hann kom einnig á fót Konfúsíusarstofnuninni Norðurljósum og var forstöðumaður hennar árin 2008-2012. Hann hefur verið prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands síðan árið 2016.

Rannsóknir Geirs hverfast einkum um siðfræði, samfélagsheimspeki og heimspeki menntunar og nýtir hann sér þá jafnt vestrænar sem kínverskar nálganir. Hann hefur einkum einblínt á heimspeki konfúsíanismans en jafnframt á daoisma og kínversk herstjórnarfræði. Meginrit hans er bókin Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation, sem kom út hjá State University of New York Press árið 2015 og fjallar öðru fremur um hið konfúsíaníska hugtak li 禮 sem mætti útleggja sem "siði" eða "helgiathafnir". Þar túlkar Geir hugtakið með hliðsjón af menntaheimspeki sem á fullt erindi við samtímann. Geir hefur einnig þýtt ritið Hernaðarlist Meistara Sun úr frummálinu (fornkínversku) og skrifað við það ítarlegar skýringar og inngang. Ritið kom út árið 2019 hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Hann hefur einnig birt á sjötta tug greina um ýmis heimspekileg efni, flest á ensku.

Tengill Breyta

Hvaða rannsóknir hefur Geir Sigurðsson stundað? - Vísindavefurinn