Gaslýsing
Gaslýsing er þýðing á nýyrði í ensku frá fyrsta áratug 21. aldarinnar, „gaslighting“, en það merkir andlegt ofbeldi gegn einstaklingi sem er fólgið í því að veruleiki einstaklingsins er ítrekað dreginn í efa með það að markmiði að grafa undan sjálfstrausti fórnarlambsins.
Hugtakið á uppruna sinn í bandarískri kvikmynd frá árinu 1944, Gaslight. Myndin byggir á ensku leikriti, Gas Light, frá 1938 eftir Patrick Hamilton, en þar segir af eiginmanni sem virðist tillitssamur og ástríkur, en grefur undan geðheilsu konu sinnar með því að fá hana til að efast um eigin upplifun af veruleikanum. Markmiðið er að konan „missi vitið“ og eiginmaðurinn erfi hana.
Titill myndarinnar og orðið „gaslighting“ vísar til þess að gaslýsingin í húsi þeirra hjóna virtist ávallt flökta þegar eiginkonan var skilin eftir ein heima.