Garðabrúða
Garðabrúða (Valeriana officinalis) er harðgerð fjölær jurt sem tilheyrir garðabrúðuætt en fáar ættkvíslir eru í ættinni og garðabrúða er sú eina sem er vel þekkt hér á landi. Garðabrúða blómgast í júlí til ágúst og vex villt á mörgum stöðum á landinu og er ræktuð víða til skrauts.[1] Garðabrúða finnst á engjum, síkjum, oft í kalkbornum jarðvegi, og allt uppí 2,400 m hæð.[2] Heimkynni hennar eru aðallega Evrópu og Asíu.[1]
Garðabrúða | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Valeriana officinalis L. |
Garðabrúða heitir á latínu Valeriana officinalis en nafnið er dregið af rómverska mannsnafninu Valeríus[1] og þýðir að vera heilbrigður eða hugrakkur þar sem garðabrúða var lengi notuð sem lækningajurt.[3]
Þrátt fyrir að hafa verið notuð í hefðbundnum lækningum sem róandi lyf eða sem svefnlyf eru ekki til góðar vísbendingar um að jurtin hjálpi til við svefnleysi.[4] Garðabrúða hjálpar ekki til við fótaóeirð[5] eða kvíða.[6]
Saga
breytaSamkvæmt þjóðtrú var garðabrúða sögð hafa róandi virkni. Grikkir og Rómverjar lýstu garðabrúðu sem bitri og arómatískri, og hún var notuð til að meðhöndla meltingarfæravandamál. Á miðöld var hún notuð til að meðhöndla flogaveiki og frá sautjándu til nítjándu öld var garðabrúða víða notuð til að draga úr taugasjúkdómum. Hómópatar hafa svo notað garðabrúðu fyrir sefasýki, ofurnæmni , krömpum, magaverkjum, gigtarverkjum, slitróttum astma og svefnleysi. Í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni var tinktúra af garðabrúðu notuð sem meðferð við sprengjulosti.[3]
Margir tengja garðabrúðu við sterka lykt, sem mörgum finnst afar vond. Á 16 öld var lyktin þó talin vera mjög vel ilmandi, og rótin var sett í föt sem lykteyðandi. Seinna skipaði það sér sess í ilmvatns framleiðslu. Ferska rótin eða ferskur útdráttur lyfsins hefur hinsvegar enga einkennandi lykt en hún þróast seinna sökum vatnsrofs á ensímum sem leiðir til myndunar á samsætu valerínsýru.[3]
Lyktin af þurrkaðri garðabrúðu hefur verið líkt við þá lykt sem finnst af heimilsköttum, sem hefur gefið henni almennt heiti í Frakklandi sem „herbe aux chats“ eða kattarrót. Einkenni lyktarinnar sem stafar frá þurrkaðri rót er kennd við valerínsýru, sameind sem finnst einnig í kirtlaseytingu hjá sumum meðlimum kattarfjölskyldunnar og er tengd mökunarhegðun þeirra.[3]
Garðyrkja
breytaGarðabrúða er vinsælt val í görðum og garðyrkjufólk kann að meta sætann ilminn sem stafar af bleikum og hvítum blómum jurtarinnar. Á meðan sæti ilmurinn af blómum hennar er einkennandi þá lyktar restin af plöntunni og þá sérstaklega rótin daunilla og finnst mörgum hún lykta eins og gamlir sokkar.[7]
Garðabrúða gerir engar sérstakar kröfur til jarðvegs og hún þrífst vel hvort sem er í sól eða hálfskugga.[1] Hún þolir bæði súran og basískan jarðveg. Jarðstönglar garðabrúðu breiðast hratt út og mynda nýjar plöntur sem hægt er að taka upp og færa annað í garðinum.[7] Þar sem jarðstönglarnir eru nokkuð skriðulir þarf að fjarlægja hluta af þeim á vorin.[1] Ef eldri þyrpingar eru byrjaðar að brotna niður þá er hægt að endurlífga plöntuna með því að skipta henni.[7]
Þegar garðabrúða er sett niður í garða þá dregur hún að sér gagnlega orma en þeir dragast að fosfór ríkum rótum hennar. Gott er að rækta garðabrúðu á mismunandi stöðum í kringum grænmetisgarðinn til að nýta gagnlega viðveru ormanna.[7]
Formfræði
breytaGarðabrúða sýnir töluverða fjölbreytni í formfræði en til eru tvílitna, fjórlitna og áttalitna form af henni.[3]
Jarðstönglar garðabrúðu geta verið gulgráir til föl-grábrúnir, keilulaga til sívala, allt að 50 mm langir og 30 mm í þvermál. Sökkull hennar er ílangur eða samanþjappaður, þakinn af og samrunninn fjöldanum öllum af rótum. Ræturnar eru fjölmargar, hálf sívalar, með sama lit og jarðstöngullinn, 1-3 mm í þvermál og stundum meira en 100 mm langar. Nokkrar þráðlaga og viðkvæmar undirrætur eru einnig til staðar. Jarðrenglur eru föl gulgráar og sýna áberandi hnúta sem eru aðskildir með langsum rákóttum innrihnútum, þar sem hver er 20–50 mm langir með trefjóttum hluta.[8]
Stilkur garðabrúðu er 30–150 cm, fer mjög sjaldan í 240 cm. Laufblöðin eru venjulega gagnstæð með 3-25 smáblöðum, stakfjöðruð, lensulaga eða egglensulaga, heil eða tennt,[3] þau neðri langstilkuð, þau efri miklu minni og stilklaus.[2] Blóm garðabrúðu myndast með kynlausri æxlun og eru bleik eða hvít,[3] í stórum hvelfdum toppum á stöngulendum.[1] Blómkróna er trektlaga, stundum með spora, vængur hennar fimmflipóttur[2] og krónan er 2,5-5,5 mm löng. Aldin eru 2-5 mm löng, hærð eða hárlaus,[3] Bikarblöð eru samanvafin og varla sýnileg á meðan blómgun stendur en rétta síðan úr sér og stækka og verða að fjaðuskiptum svifhölum á aldininum.[1]
Garðabrúðurót hefur einkennandi og gegnumsmjúgandi lykt,[8] sem stafar af valerínolíu sem finnst í plöntunni, þá aðallega rót og jarðstöngli. Mikið er af þessari olíu í garðabrúðu.[1]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Hólmfríður A. Sigurðardóttir (1995). Íslenska garðblómabókin. bls. 274–275.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Blamey, M., & Grey-Wilson, C (1992). Myndskreytt flóra Íslands og norður-Evrópu. skjaldborg hf. bls. 384.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 3,7 McKenna, D. J., Jones, K., Hughes, K., & Tyler, V. M. (2012). Botanical medicines: the desk reference for major herbal supplements. Routledge. bls. 1007–1009.
- ↑ Leach MJ, Page AT (2015). „Herbal medicine for insomnia: A systematic review and meta-analysis“. Sleep Med Rev (Review). 24: 1–12. doi:10.1016/j.smrv.2014.12.003. PMID 25644982.
- ↑ Bega D, Malkani R (2016). „Alternative treatment of restless legs syndrome: an overview of the evidence for mind-body interventions, lifestyle interventions, and neutraceuticals“. Sleep Med. (Review). 17: 99–105. doi:10.1016/j.sleep.2015.09.009. PMID 26847981.
- ↑ Miyasaka LS, Atallah AN, Soares BG (2006). „Valerian for anxiety disorders“. Cochrane Database Syst Rev (Systematic review) (4): CD004515. doi:10.1002/14651858.CD004515.pub2. PMID 17054208.
- ↑ 7,0 7,1 7,2 7,3 Tenenbaum, F. (1999). Taylor's 50 Best Herbs and Edible Flowers: Easy Plants for More Beautiful Gardens. Houghton Mifflin Harcourt. bls. 104–105.
- ↑ 8,0 8,1 Houghton, P (1997). Valerian: the genus Valeriana. CRC Press. bls. 107.