Galdrastrumpurinn (franska: L'Apprenti Schtroumpf) er sjöunda bókin í ritröðinni um Strumpana og kom út árið 1971. Listamaðurinn Peyo teiknaði og samdi söguna. Hún var jafnframt áttunda strumpabókin sem kom út á íslensku árið 1980.

Söguþráður breyta

Galdrastrumpurinn hefst á því að einn strumpanna þráir að læra galdra eftir að hafa fylgst með Yfirstrumpi að störfum. Hann brýst inn til Kjartans galdrakarls og stelur blaðsíðu úr galdrabók. Uppskriftin breytir honum í afstyrmi, en með samhentu átaki strumpanna tekst þeim að finna móteitur.

Strumpagildrur er smásaga sem hefst á því að Kjartani galdrakarli tekst að handsama strumpana einn af öðrum með hjálp haganlega útbúinna gildra. Yfirstrumpur nær þó að frelsa strumpana og læsa Kjartan ofan í kistu.

Veðurvélin segir frá snjöllum strumpi sem hannar vél sem ræður veðráttunni. Deilur milli strumpa sem ýmist vilja blíðviðri og rigningu leiðir til þess að vélin gengur af göflunum og veðrið verður óviðráðanlegt. Að lokum tekst Yfirstrumpi þó að leiða eldingu niður í vélina. (Sagan birtist aftur sem aukasaga Geimstrumpnum árið 2017.)

Íslensk útgáfa breyta

Bókin kom út á vegum Iðunnar árið 1980 í samvinnu við danska forlagið Carlsen. Þýðingin var gefin út undir dulnefninu Strumpur.