Gaius Maecenas
Gaius eða Cilnius Maecenas (70 f.Kr. - 8 f.Kr.) var einkavinur og ráðgjafi Ágústusar auk þess að vera bakhjarl margra ungra skálda. Nafn hans varð táknrænt fyrir valdamikla og auðuga velgjörðarmenn listamanna.
Tacítus (Ann. 6. 11) vísar til hans sem „Cilniusar Maecenasar“. Það er hugsanlegt að „Cilnius“ hafi verið ættarnafn móður hans.
Sem náinn vinur og ráðgjafi Ágústusar öðlaðist Maecenas nánast stöðu sem næstráðandi þegar Ágústus var fjarri. Á seinni árum kom fram stirðleiki í vináttu þeirra, sennilega að einhverju leyti vegna þess að Ágústus hélt við konu hans, Terentíu. Þegar Maecenas lést útnefndi hann Ágústus einkaerfingja sinn.
Sennilega er Maecenas frægastur fyrir stuðning sinn við ung skáld. Það útskýrir hvers vegna nafn hans hefur orðið að samheiti fyrir velgjörðarmenn listamanna á mörgum tungumálum. Sagt er að hann hafi uppgötvað skáldið Hóratíus og styrkt Virgil sem samdi Búnaðarbálk (Georgica) til heiðurs honum. Maecenas gaf Hóratíusi villu í sabínsku fjöllunum. Skáldin Propertíus, Varíus Rufus, Plotíus Tucca, Valgíus Rufus og Domitíus Marsus voru einnig skjólstæðingar hans.
Maecenas samdi einnig sjálfur kvæði og ritaði bækur. Um tuttugu brot eru varðveitt úr verkum hans. Sagt er að meðal verka hans hafi verið samræður á borð við Samdrykkjuna og ljóðið In Octaviam („Gegn Octavíu“) en óljóst er um hvað ljóðið fjallaði.