Freya Stark
Freya Madeline Stark (31. janúar 1893 – 9. maí 1993) var bresk-ítalskur landkönnuður, ljósmyndari og ferðabókahöfundur. Hún skrifaði yfir 20 bækur um ferðir sínar um Mið-Austurlönd og Afganistan auk sjálfsævisögulegra rita og ritgerða. Hún var einn af fyrstu vestrænu landkönnuðunum sem ferðuðust um suðurhluta Arabíueyðimerkurinnar.
Hún fæddist í París en ólst upp á Norður-Ítalíu. Foreldrar hennar skildu þegar hún var barn. Þrettán ára lenti hún í slysi í verksmiðju á Ítalíu þar sem hár hennar festist í vél með þeim afleiðingum að hluti af höfuðleðri og annað eyra hennar rifnuðu af. Hún fékk húðágræðslu og var fjóra mánuði á sjúkrahúsi, en slysið skildi eftir áberandi andlitslýti sem hún faldi með höttum og slaufum. Árið 1926 lést systir hennar, Vera, eftir fósturlát og Freya var ákveðin í að hljóta ekki sömu örlög. Hún fór í sitt fyrsta ferðalag árið eftir, til Líbanon og Bagdad. Í síðari heimsstyrjöld var hún ráðin af upplýsingamálaráðuneyti Breta til að dreifa áróðri í Egyptalandi, Sýrlandi og Palestínu. Eftir stríð giftist hún, en skildi að borði og sæng eftir aðeins fimm ár og hélt ferðum sínum áfram auk þess að fást við skriftir.
Hún fékk foringjatitil í bresku heimsveldisreglunni 1972. Hún lést í Asolo á Norður-Ítalíu nokkrum mánuðum eftir að hafa náð 100 ára aldri.