Franski spítalinn

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði var reistur árið 1903 og tekinn í notkun árið 1904. Hann var einn af fjórum spítölum sem byggðir voru á Íslandi af franska ríkinu til að þjóna frönskum fiskimönnum sem stunduðu veiðar við landið. Húsið er mjög merkilegt hús og ekki síður sú sagan sem tengist því. Húsið var tekið og flutt út á Hafnarnes 1939. Þá var veiðum franskra fiskiskipa lokið á Íslandsmiðum, en vísir kominn að útræðisþorpi þar. Húsið var notað þar sem íbúðarhús og skóli. Þegar flestir voru þar, bjuggu milli 50 og 60 manns í húsinu og var búið í því fram um 1964. Síðan var það ekki neitt notað og stóð í eyði í nær 50 ár, fékk nánast ekkert viðhald allan þann tíma sem það stóð á Hafnarnesi. Húsið var því orðið mjög illa farið og að hruni komið.

Franski spítalinn langt kominn í byggingu
Mynd: Christian Bickel

Minjavernd hf. tók 2008 ákvörðun um að endurbyggja húsið. Það var flutt í hlutum inn að Búðum og komið fyrir á hafnarsvæðinu þar. Því næst var því fundinn staður við Hafnargötu, neðan við Læknishúsið sem Frakkar reistu 1907. Hafa þessi tvö hús verið tengd saman með göngum undir Hafnargötuna. Kapella Frakka sem byggð var 1898 var keypt, en hún var afhelguð 1923, flutt upp í plássið og gerð að íbúðarhúsi og ljósabúð. Hún hefur nú verið flutt niður að Hafnargötu á ný og endurbyggð við hlið Sjúkraskýlisins, endurgerðs fyrsta húss sem Frakkar reistu á Fáskrúðsfirði 1896. Enn fremur hefur Líkhúsið verið endurgert, en það stóð upphaflega aðeins ofan og austan Spítalans. Saman standa þar því nú öll þau hús eða endurgerðir þeirra, sem Frakkar reistu á sínum tíma, á árabilinu 1896 til 1907.

Fosshótel hafa leigt hótelhluta húsanna fyrir sérstakt og gott hótel og Fjarðabyggð hefur leigt hluta þeirra fyrir sýningu um veiðar Frakka. Húsin verða öll tekin í notkun fyrir hótel, sýningu og kapellu vorið 2014. Verkefnið hefur verið unnið í góðu samstarfi við Fjarðabyggð og fleiri aðila. ARGOS ehf. Arkitektastofa Grétars og Stefáns hafa verið aðalhönnuðir að verkefninu, en Mannvit hf. og Efla hf. hafa sinnt verkfræðiþáttum. Starfsmenn Minjaverndar hafa sinnt stærstum hluta verksins, en jafnframt hefur komið að því fjöldi verktaka og stærstan hlut þar á Tré og steypa ehf. á Fáskrúðsfirði.

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði reyndist mun verr farinn en talið var áður en endurbygging hófst. Þó aðeins sé hægt en nýta einstaka spýtu er húsið komið á sinn stað og nálgast óðfluga sína endanlegu mynd. [1]

Aðrir franskir spítalir voru í Reykjavík, á Heimaey og í Grundafirði.

TilvísanirBreyta

HeimildirBreyta