Fornleifaskráning er það að leita að minjum á afmörkuðu svæði, hvort sem það er á landi eða í sjó, til skráningar.

Varða á Sprengisandi.

Bæði í jörðu og á sjó eru minjar sem hver kynslóð skilur eftir sig og eru þær heimildir um líf fólks. Í tímanna rás hefur það tekið breytingum hvað telst sem fornleifar. Framan af voru aðeins skráðar byggingar og gripir frá víkingaöld en færst hefur í vöxt að skrá minjastaði hvað sem líður aldri þeirra og fremur horft til rannsóknar eða táknrænt gildi þeirra, enda lýkur sögu ekki við ákveðið ártal, eins og 1900 e. Kr.[1]

Skráning minjastaða

breyta

Fornleifaskráning felur í sér að leita að upplýsingum í rituðum heimildum, taka viðtöl við staðkunnuga og mæla upp minjar á vettvangi. Skipta má verklagi fornleifaskráningar í þrennt í samræmi við þrjú stig skipulagsvinnu:[2]

  1. Svæðisskráning: Í svæðisskráningu er upplýsingum safnað saman um staðsetningu og gerð minja úr rituðum heimildum. Skjöl eru til að mynda lesin og túnakort skoðuð. Úr þessu fæst grunnur að fjölda og dreifingu minja á tilteknu svæði. Það gefur möguleika á að finna staði sem þykja sérstaklega athyglisverðir til kynninga eða rannsókna og svæði sem eru í hættu. Þessu til viðbótar er svæðisskráning undirbúningur fyrir aðalskráningu.
  2. Aðalskráning: Á þessu stigi er farið út í mörkina og rætt við ábúendur eða aðrar manneskjur sem eru staðfróðar. Að svo búnu er farið af stað og leitað á svæðum sem sennilegt er að minjar leynist á. Þegar minjastaður er fundinn er hann skráður á staðlaðan hátt og lagt mat á ástand hans, hnattstaða fundin, staðurinn ljósmyndaður svo og uppdráttur teiknaður eftir því sem tilefni er til. Einnig er reynt að meta hvort staðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.
  3. Deiliskráning: Tilgangur deiliskráningar er að fá upplýsingar um minjastaði á (litlum) afmörkuðum svæðum. Verklag við deiliskráningu er álík og við aðalskráningu nema í deiliskráningu er gengið skipulega yfir allt svæðið og minjar mældar upp á nákvæmari hátt. Öðru hverju gæti verið nauðsynlegt að grafa könnunarskurð til þess að kanna aldur og hvort að um mannvirki sé ræða.

Minjavarsla

breyta

Fornleifaskráning er eitt mikilvægasta - ef ekki það mikilvægasta - verkefni fyrir minjavörslu hvers lands. Talið er að á Íslandi séu að minnsta kosti 130 þúsund fornleifastaðir en á ári hverju verður fjöldi þeirra fyrir eyðileggingu, til dæmis vegna byggingaframkvæmda, túnasléttunar eða sjávarrofs. Slík eyðilegging getur afmáð sögu sem aðrar heimildir eru fáorðaðar um. Fyrir þá sök er nauðsynlegt að vita hvar staðirnir séu og hvert ástand þeirra svo að hægt sé leggja mat á hvaða sögu samfélagið vill varðveita fyrir framtíðina.[3]

Vísindarannsóknir

breyta

Fornleifaskráningar eru iðulega gerðar í tengslum við framkvæmdir, en skráning minjastaða getur að auki verið gerð í vísindalegum tilgangi (eða gögn framkvæmdaskráninga séu nýttar í rannsóknir). Markmið fornleifaskráninga í rannsóknarskyni er t.d. að finna minjastaði, kanna ævisögu landslags eða greina ákveðið mynstur minja. Allt er þetta gert í því skyni að svara ákveðnum spurningum. Þess konar rannsóknar geta verið allt frá því að rannsaka skipulagningu einstakra grafreita upp í feiknastór landsvæði. Klassísk rannsókn sem nýtir sér aðferðarfræði skráningar er bandarísk könnun á húsgarði efnamanns í Annapolis. Með því að skrá form garðsins, staðsetningu minja innan hans og vísun þeirra í klassíska fornöld, þá sýndi rannsóknin fram á hvernig garðurinn var efnislegur vitnisburður sem voldugt tákn um samfélagslegt vald húsráðandans og hafði garðurinn mótandi áhrif á gesti og gangandi.[4]

Í fornleifaskráningu í vísindaskyni eru samskonar verklagi beitt og í hefðbundinni fornleifaskráningu, einkum deiliskráningu. Tilgangurinn er að fá nákvæmar upplýsingar um minjastaðinn. Af þeim sökun er í fáeinum tilvikum notuð ýmis jarðsjátæki, til dæmis viðnámsmælir, til að skima eftir minjum undir jarðvegi. Í sumum tilvikum eru teknir könnunarskurði til þess að athuga hvort um mannvirki sé að ræða, vita aldur þess eða ná í sýni til efnagreiningar.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Guðmundur Ólafsson og Helgi Þorláksson. (1995). Staða fornleifaskráningar á Íslandi 1995, bls. 5.
  2. Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson. (1998). Fornleifaskráning: Brot úr íslenskri vísindasögu, bls. 38-39
  3. Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson. (1998). Fornleifaskráning: Brot úr íslenskri vísindasögu, bls. 14.
  4. Leone, M. (1984). "Interpreting Ideology in Historical Archaeology: The William Paca Garden in Annapolis, Maryland" í D. Miller and C. Tilley (ritstj.), Ideology, Power and Prehistory, bls. 25-37.
  5. Carver, M. (2009). Archaeological Investigation, bls. 100.

Heimildaskrá

breyta
  • Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson. (1998). Fornleifaskráning: Brot úr íslenskri vísindasögu. Archaeologia Islandica, 1, 14-44.
  • Carver, M. (2009). Archaeological Investigation. London: Routledge.
  • Guðmundur Ólafsson og Helgi Þorláksson. (1995). Staða fornleifaskráningar á Íslandi. Rannsóknarskýrslur fornleifadeildar 1/1995. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
  • Leone, M. (1984). "Interpreting Ideology in Historical Archaeology: The William Paca Garden in Annapolis, Maryland." Í D. Miller and C. Tilley (ritstj.), Ideology, Power and Prehistory (bls. 25-37). Cambridge: Cambridge University Press.

Ítarefni

breyta
  • Birna Lárusdóttir (ritstj.). (2011). Mannvist: Sýnisbók íslenskra fornleifa. Reykjavík: Opna.
  • David, B. og Thomas, J. (ritstj.). (2008). Handbook of Landscape Archaeology. Walnut Creek: Left Coast.
  • Guðmundur Ólafsson. (2015). Upphaf skipulagrar fornleifaskráningar á Íslandi. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2014, 121-134.
  • Kolen, J., Renes, J., og Hermans, R. (ritstj.). (2015). Landscape Biographies. Geographical, Historical and Archaeological Perspectives on the Production and Transmission of Landscapes. Í Rita Hermans, Koos Bosma, Hans Renes, Freek Schimdt, Sjoerd Kluiving, Rob van der Laarse og Jan Koolen (ritstj. ritraðar), Landscape and Heritage Studies: II. bindi. Amsterdam: Amsterdam University Press.
  • Ragnar Edvardsson og Arnar Þór Eigilsson. (2011). Archaeological Assessment of Selected Submerged Sites in Vestfirðir. Archaeologia Islandica, 9, 9-28.
  • Sveinbjörn Rafnsson (bjó til prentunar). (1983). Frásögur um fornleifar (I. bindi). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.