Filippus 1. af Kastilíu

Filippus fagri (22. júlí 1478 – 25. september 1506) ríkti yfir Niðurlöndum Búrgunda og var hertogi af Búrgund frá 1482 til 1506. Hann var auk þess fyrsti Spánarkonungur af ætt Habsborgara um stutt skeið árið 1506.

Filippus fagri á málverki eftir Jóhann af Flandri frá um 1500.

Hann var sonur Maximilíans 1. keisara og Maríu af Búrgund. Hann var ekki fjögurra ára gamall þegar móðir hans lést og hann erfði landareignir Búrgunda í Niðurlöndum. Þrátt fyrir ungan aldur var hann dáður lénsherra sem kom á efnahagslegum umbótum og friði.

Árið 1496 gerði faðir Filippusar samning um hjónaband hans og Jóhönnu sem var önnur dóttir Ísabellu og Ferdinands. Á sama tíma var systir Filippusar, Margrét, trúlofuð bróður Jóhönnu, Jóhanni af Astúrías. Þegar eldri systkini hennar, Jóhann og Ísabella, létust, ásamt barnungum frænda hennar, Miguel de Paz, varð Jóhanna krónprinsessa í Kastilíu og Aragóníu. Filippus reyndi að styrkja vald sitt á Spáni sem leiddi til átaka við eiginkonu hans og föður hennar. Jóhanna varð drottning Kastilíu þegar móðir hennar lést árið 1504. Filippus var hylltur sem konungur árið 1506, en hann lést nokkrum mánuðum síðar. Faðir og sonur Jóhönnu tóku þá völdin og lokuðu hana inni vegna meintrar geðveiki.

Filippus var fyrsti Spánarkonungurinn af ætt Habsborgara og allir spænskir konungar eftir Karl 5. hafa verið afkomendur hans. Filippus dó á undan föður sínum og erfði hann því aldrei. Hann varð því aldrei keisari hins Heilaga rómverska ríkis. Sonur hans, Karl, átti eftir að sameina ríki Habsborgara, Búrgunda, Kastilíu og Aragóníu. Með því að erfa Niðurlönd Búrgunda og fá Spán og lönd spænska heimsveldisins í Nýja heiminum með hjónabandi sínu og Jóhönnu átti Filippus mikinn þátt í að efla völd Habsborgara. Afkomendur hans ríktu yfir evrópskum löndum næstu fimm aldirnar.

  Þetta æviágrip sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.