Eldarnir í Yellowstone 1988
Eldarnir í Yellowstone 1988 voru mestu skógareldar í skráðri sögu Yellowstone-þjóðgarðsins í Bandaríkjunum. Eldarnir kviknuðu frá 14. júní 1988 sem nokkrir smærri eldar en breiddust út vegna langvarandi þurrka og vinds. Á endanum varð stórbruni sem varði í marga mánuði og eyðilagði mikið af mannvirkjum í þjóðgarðinum. Þann 8. september 1988 var garðinum lokað fyrir öllum nema viðbragðsaðilum í fyrsta sinn frá stofnun hans. Um haustið varð aukinn loftraki og kaldara veður til þess að draga úr eldinum og þann 18. nóvember voru síðustu eldarnir slökktir. Samtals urðu 3.213 km² fyrir áhrifum vegna brunans.
Talið er að mikið af eldiviði í formi gamallar stafafuru sem var ríkjandi í skógum þjóðgarðsins, ásamt miklu af yngri trjám sem höfðu lagt skógarbotninn undir sig, hafi átt þátt í að skapa svo mikla skógarelda. Á þessum tíma var tekið að líta á náttúrulega skógarelda sem eðlilegan hluta af þróun vistkerfisins og því var reynt að hafa stjórn á eldinum fremur en berjast við að slökkva hann. Vistkerfi þjóðgarðsins beið ekki neinn varanlegan skaða af eldunum og fá stærri spendýr fórust.