Edvard Eriksen
Edvard Christian Johannes Eriksen (10. mars 1876, Kaupmannahöfn – 12. janúar 1959 smst.) var danskur myndhöggvari, og er hans einkum minnst fyrir Litlu hafmeyjuna. Hann bjó við Fuglebakkevej í Friðriksbergi. Móðir hans var íslensk, Svanfríður Torfadóttir frá Brekku í Langadal við Djúp.
Hann lauk prófi frá danska listaháskólanum 1899 og sló nokkuð í gegn 5 árum síðar með verkinu Haabet (Vonin), en fyrir það verk hlaut hann hin árlegu dönsku verðlaun listaakademíunnar.
Árið 1902 hélt hann veglega sýningu á Charlottenborg. Frá 1908 var hann heiðursprófessor við listaháskólann í Carrara, á Ítalíu.
Af verkum hans öðrum má nefna stórstyttur af Kristjáni 9. og Lovísu drottningu í Dómkirkjunni í Hróarskeldu, sem var úthöggvin úr marmara og tók smíðin 3 ár 1914–17. Ennfremur gerði hann verk á norður- og suðurhlið Ny Carlsberg Glyptotek með 10 táknum úr sandsteini með táknum úr vísindum og listum.
Árið 1930 var hann ráðinn í stöðu við Thorvaldsens Museum og tveimur árum síðar var honum ánöfnuð viðurkenningin Dannebrogsorðan.