Draugabærinn (franska: La Ville fantôme) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 25. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1964, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1963.

Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Í byrjun bókarinnar verða á vegi Lukku Láka tveir spilasvindlarar, Danni kaupahéðinn og Kalli spaðakóngur, sem slást í för með honum til næsta bæjar. Þeir koma til bæjarins Gullhæðar sem reynist löngu yfirgefinn námabær. Eini íbúi bæjarins er gamall gullgrafari, kallaður Siggi skot, sem rekur Lukku Láka og félaga hans burt úr bænum með haglabyssu. Þeir halda ferð sinni áfram og koma til bæjarins Tígulgils. Þar fréttir Lukku Láki að Siggi gamli hafi sem ungur maður verið gabbaður til að kaupa námu við Gullhæð og hafi síðan eytt ævinni í árangurslausa leit að gulli í námunni. Félögunum Danna og Kalla dettur í hug að kaupa námuna af Sigga til að geta platað einhvern til að kaupa hana af þeim aftur fyrir morð fjár. Siggi skot er ekki á þeim buxunum að selja námuna og Danni og Kalli grípa þá til óþokkabragða til að koma Sigga gamla í burtu, fyrst með því að telja hjátrúarfullum bæjarbúum í Tígulgili trú um að sá gamli sé göldróttur særingamaður en síðan með því að bera á hann þjófnað. Ætlunarverk þeirra mistekst, en Siggi gamli fær sig fullsaddan og lætur tilleiðast að selja þeim námuna. Þegar Danni og Kalli þykjast hafa fundið gull í námunni verður fjandinn laus og múgur og margmenni flykkist til Gullhæðar til að taka þátt í gullæðinu.

Fróðleiksmolar breyta

  • Draugabærinn er ein af "pólitísku" sögunum í bókaflokknum sem höfða ekki síður til eldri lesenda en þeirra sem yngri eru. Sterkar aukapersónur setja líka svip sinn á söguna, bæði hinir fullkomlega samviskulausu svindlarar Danni og Kalli og ekki síður brjóstumkennanlegi gullgrafarinn Siggi skot sem Lukku Láki kemur til bjargar.
  • Sagan er lauslega byggð á vestranum Yellow Sky frá árinu 1948 sem leikstýrt var af William A. Wellman með Gregory Peck í aðalhlutverki. Myndin segir frá hópi bankaræningja sem uppgötva nánast mannlausan draugabæ þar sem gamall maður leitar að gulli.
  • Aðferðin, sem Danni og Kalli nota til að láta líta út fyrir að gull sé að finna í námu Sigga gamla (að "salta" námuna), er vel þekkt og kom m.a. við sögu í miklu hneykslismáli sem tengdist kanadíska námufyrirtækinu Bre-X árið 1997.
  • Á einum stað í sögunni hótar Lukku Láki að reka lafhrædda bæjarbúa út úr húsum sínum með sexhleypunni. Um leið hleypir hann af byssunni, fyrst sjö og síðan átta skotum. Í bókinni Lukku Láki og Langi Láki kemur fram að skammbyssa Láka sé eina sjöhleypan í Villta Vestrinu.
  • Bókinni bregður fyrir í hinni margverðlaunuðu frönsku kvikmynd Un homme et une femme frá árinu 1966.
  • Karakterinn Kalli spaðakóngur birtist í kvikmyndinni Daisy Town frá árinu 1971.
  • Í byrjun sögunnar birtist Lukku Láki ríðandi á Léttfeta með múlasna í taumi. Engin skýring er gefin á tilvist múlasnans.

Íslensk útgáfa breyta

Draugabærinn var gefin út af Froski útgáfu árið 2016 í íslenskri þýðingu Anítu K. Jónsson. Þegar bókin kom út voru liðin 33 ár frá útgáfu Fjölva á Bardaganum við Bláfótunga árið 1983, en sú bók var 33. og síðasta bókin í bókaröðinni sem kom út á vegum Fjölvaútgáfunnar.