Dispútasía (úr latínu disputare, að rökræða eða útlista) er opinber rökræða, þar sem háskólamaður (kennari eða nemandi) setur fram fullyrðingu eða ritgerð, sem hann ætlar að verja, en andmælendur gagnrýna harðlega.

Á fyrri öldum voru slíkar dispútasíur mikið notaðar til þess að komast að niðurstöðu og gera upp á milli ólíkra skoðana. Þær voru einnig notaðar sem æfingar við æðri skóla, bæði í latínu, sem þá var alþjóðamál lærðra manna, og einnig í mælsku og snjallri röksemdafærslu. Þannig áttu háskólakennarar (prófessorar) að rökræða reglulega um viðfangsefni innan fræðigreinar sinnar, og voru slíkar andlegar skylmingar í hávegum hafðar. Þær voru umtalsverður þáttur í hugmyndagrósku innan háskólanna, og voru taldar fræðileg hliðstæða burtreiða riddara og aðalsmanna. Slíkt þótti eðlileg rannsóknaraðferð á þeim tíma, en leiddi oft til dýrkunar á málskrúði og mælskubrögðum, í stað vísindalegra rannsókna í nútímaskilningi.

Þessi aðferð tíðast enn við doktorsvörn í háskólum okkar tíma. Sá sem ætlar að afla sér lærdómsgráðu í ákveðinni fræðigrein, og fullnægir skilyrðum til slíks, sendir doktorsritgerð til viðkomandi háskóladeildar. Ef ritgerðin er talin hæf til varnar, fer fram opinber doktorsvörn. Þar eru tilnefndir tveir opinberir andmælendur, en einnig geta komið athugasemdir frá áheyrendum úr sal (ex auditorio) . Andmælendurnir „gagnrýna“ ritgerðina, en doktorsefnið ver sig eftir mætti. Nú orðið er vörnin aðeins formsatriði, því að ritgerð er ekki lögð fram til varnar fyrr en bætt hefur verið úr ágöllum hennar.

Orðið „dispútasía“ er einnig notað um ritgerðina sjálfa, sem lögð var fram. Hún var jafnan á latínu og oft prentuð. Dispútasíur á fyrri öldum voru yfirleitt ekki sambærilegar við doktorsritgerðir nútímans, þær voru mun veigaminni, bæði að innihaldi og umfangi, og oft ekki miklar rannsóknir sem lágu að baki þeim.

Orðið „dispútasía“ er ekki notað um nútíma doktorsritgerðir.

Heimild

breyta