De nationalliberale
De nationalliberale (íslenska: Þjóðfrelsisflokkurinn) var danskur stjórnmálaflokkur eða stjórnmálahreyfing sem lét til sín taka um miðbik 19. aldar. Hann er stundum kallaður fyrsti danski stjórnmálaflokkurinn, þótt skipulag hans hafi verið mun lausara í reipunum en síðar tíðkaðist meðal stjórnmálaflokka. Hann var stofnaður til höfuðs einveldi konungs og starfaði m.a. að þýskri fyrirmynd. Skammlífu valdaskeiði flokksins lauk með síðara Slésvíkurstríðinu sem endaði á niðurlægjandi ósigri Dana.
Saga og hugmyndafræði
breytaÞjóðernissinnuð frjálslyndisstefna var stjórnmálastefna sem kom fram í allnokkrum Evrópulöndum í upphafi nítjándu aldar og barst til Danmerkur á fjórða áratug þeirrar aldar. Um var að ræða bræðing af þjóðernishyggju og frjálslyndisstefnu, þar sem saman fór krafan um sjálfstæð þjóðríki og umbætur á stjórnmálasviðinu, s.s. með afnámi einveldis og að þjóðir fengju að ráða sér sjálfar.
Fylgismenn þessarar hygmyndafræði töldu sjálfa sig hafna yfir eiginhagsmuni, heldur væru þeir hópur sem gæti tekið ákvarðanir út frá hag fjöldans. Stefnan sótti einkum fylgismenn í raðir embættismanna og langskólagenginna, sem jafnframt töldu að efnamenn og menntamenn væru best til þess fallnir að taka ákvarðanir í samfélaginu með kosningarétti sínum. Þjóðernis-frjálslyndisstefnan barst til Danmerkur á árunum eftir 1830 og hafði þegar mikil áhrif, einkum á unga menntamenn. Hún fól í sér kröfu um atvinnu- og verslunarfrelsi, helst án afskipta ríkisvaldsins og kröfur um að ryðja úr vegi síðustu leifum lénskerfisins.
Vöxtur og vinsældir
breytaÞar sem frjálslynda þjóðernisstefnan lagði áherslu á að þjóðríkið væri hið æskilega viðmið í stjórnmálum, lenti hún í árekstrum við ríkjandi stefnu dönsku stjórnarinnar. Stórríkisstefnan miðaðist að því að halda úti ríki með þegnum af ólíku þjóðerni undir stjórn konungsvaldsins. Árið 1842 kynnti Orla Lehmann, kunnasti hugmyndafræðingur hreyfingarinnar hins vegar til sögunnar Egðustefnuna sem fól í sér að landamæri Danmerkur skyldu falla sem næst saman við þau svæði sem byggð væru dönsku fólki. Þessi stefna fól í sér allnokkrar landakröfur á hendur Þjóðverjum á sunnanverðu Jótlandi.
Lehmann var helsti ræðumaðurinn á Kasíónófundinum árið 1848 sem leiddi til þess að Friðrik 7. neyddist til að leggja niður einveldið, skömmu eftir valdatöku sína sem konungur. Voru leiðtogar úr hópi frjálslyndra þjóðernissinna áhrifamiklir við samningu dönsku stjórnarskrárinnar árið eftir. Eftir stjórnarfarsbreytingarnar náðu íhaldssamari öfl þó fljótlega yfirhöndinni og ruddu hinum frjálslyndari til hliðar.
Ýmis öfl tókust á í dösnkum stjórnmálum eftir afnám einveldisins, s.s. stórlandeigendur, minni bændur og frjálslyndir þjóðernissinar. Árið 1857 náði síðastnefndi hópurinn loksins völdum undir stjórn Carl Christian Hall sem ríkti með stuttum hléum til ársloka 1863. Má það tímabil kallast gullöldin í sögu hreyfingarinnar, þar sem mörgum af baráttumálum hennar var hrint í framkvæmd. Öllu verr tókst þó að framfylgja Egðustefnunni sem leiddi til stríðs við Þýskaland árið 1864 sem lauk með algjörum ósigri. Flokki frjálslyndra þjóðernissinna var kennt um ófarirnar og missti hann samstundis fylgi og völd.
Stórjarðeigendur náðu undirtökunum í dönskum stjórnmálum og einn úr þeirra hópi, C. E. Frijs varð forsætisráðherra 1866. Næsta tæpa áratuginn áttu frjálsyndir þó mismikla aðkomu að samsteypustjórnum undir forystu andstæðinga sinna, stórlandeigendanna í Hægriflokknum, uns Estrup-stjórnin tók við árið 1875 og hætti öllum tilraunum til málamiðlana.
Lítil endirnýjun varð í forystuliði flokksins sem lognaðist útaf fljótlega eftir 1880.